Ávarp í tilefni alþjóðlegs barnaleikhúsdags.
Meðfylgjandi er ávarp Guðrúnar Helgadóttur rithöfundar í tilefni alþjóðlega barnaleikhúsdagsins sem haldinn verður 20. mars. Dagurinn er haldinn árlega á vegum ASSITEJ, sem eru alþjóðleg samtök um barna- og unglingaleikhús. Íslandsdeild ASSITEJ hefur verið starfandi frá árinu 1991, en aðild eiga þau atvinnuleikhús og -hópar sem standa að leiksýningum fyrir börn og unglinga
Er nokkuð til fallegra en fullur salur af eftirvæntingarfullum börnum sem bíða eftir að tjaldið lyftist? Bak við það leynist ævintýrið sem bráðlega birtist þeim í allri sinni dýrð og veruleikinn gleymist eins og hönd strjúki móðu af rúðu. Í hugarheimi barnsins er nægilegt rými fyrir allt sem það sér og heyrir án allra fyrirfram ákveðinna skoðana.
Í sjálfsævisögu sinni Séð og lifað segir Indriði Einarsson frá því því þegar hann fjórtán ára gamall og nýkominn til Reykjavíkur sá sýningu á leikriti Matthíasar Jochumssonar Útilegumennirnir árið l865. Svo mikil áhrif hafði sýningin á hann að honum þótti sem þetta væri "það mesta í heimi".
Við sem ólumst upp utan Reykjavíkur áttum þess lítinn kost að sækja leikhús, enda voru þær fáu leiksýningar sem í boði voru sjaldnast ætlaðar börnum. Og ef til vill var lítill skilningur á að börn ættu erindi við slíkt. Á skemmtunum af öllu tagi var mest um skrautsýningar, og ein er vissulega minnistæð. Kvenfélag í bænum sýndi leikgerð af kvæðinu um Lorelei, og til að auka vandræði hinna ráði firrtu sæfara var reykur látinn liðast um sviðið eins og dimm þoka. Svo fór hins vegar að þokan lagðist þétt yfir salinn allan og menn þustu út að köfnun komnir. Einhverjir sáu í nærbuxurnar á einni leikkonunni. Þetta nægði bæjarbúum til skemmtunar lengi á eftir og voru konurnar kærkomið bitbein húsmæðra sem ekki létu hafa sig í svona vitleysu. Annað skildi þetta ekki eftir.
En eins og Indriði var ég á fermingaraldri þegar ég sá fyrst "alvöru" leiksýningu. Og það var ekki einfalt mál. Fyrst þurfti að fara með Hafnarfjarðarstrætó til Reykjavíkur til að kaupa miða, sem var klukkutímaferð hvora leið og ferðir strjálar og síðan aftur í leikhúsið alein um kvöld. En hér var heldur ekki um neitt smámál að ræða. Sýningin var Hamlet með Lárus Pálsson í hlutverki Danaprins. Og þá gerðist þetta sem Indriði talar um: Þetta var "það mesta í heimi". Ég man ekkert eftir heimferðinni né næstu dögum á eftir. En lífið hafði breyst og varð aldrei aftur eins og það hafði verið. Svo miklu betra.
Þau börn sem nú eru að alast upp eiga kost á fjölbreyttara leikhúsi, en miklu meira þarf til. Helst ættu börn að fara jafnoft í leikhús og fullorðnir. Allt starf leikhúsanna fyrir börnin ber samt að þakka, en þau þurfa stuðning yfirvalda til að geta haldið úti blómlegri leikstarfsemi í þágu barnanna.
Börnin okkar eru það besta í heimi.Opinn hug þeirra þyrstir í ævintýrið sem leikhúsið er. Og leikhúsið getur ef vel er að verið aukið þeim skilning og gleði svo að þau fari heim og finnist þau hafa séð það mesta í heimi. Frá góðu leikhúsi kemur betra fólk.
Fræðslu-og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar.