20. maí 2020

Auglýsing - Sumarstörf fyrir námsmenn á háskólastigi

Hér fyrir neðan má sjá hvaða sumarstörf eru í boði fyrir námsmenn á háskólastigi.

Vestmannaeyjabær auglýsir eftir námsmönnum í grunn- og meistaranámi á háskólastigi til sumarvinnu við nokkur tiltekin verkefni í bæjarfélaginu. Um er að ræða ný og tímabundin verkefni sem taka mið af vinnu frá byrjun júní til ágústloka 2020 og byggja á samstarfsverkefni Vinnumálastofnunar og sveitarfélaga um störf fyrir námsmenn 18 ára og eldri. Námsmenn þurfa að vera á milli anna, þ.e. eru að koma úr námi og eru skráðir í nám í haust. Laun eru skv. kjarasamningi Starfsmannafélags Vestmannaeyjabæjar.

Alls eru fjögur störf sem óskað er eftir að námsmennirnir sinni, þ.e:

1. Nútímavæðing stjórnsýslu bæjarins þar sem óskað er eftir námsmanni til að ráðast í átak í ferlum við birtingu auglýsinga og reglna í Stjórnartíðindum og á vef bæjarins. Jafnramt að yfirfara reglur Vestmannaeyjabæjar um starfsmannamál og uppfæra eftir þörfum. Einnig að leggja grunn að hönnun og miðlun upplýsinga til handa starfsmönnum bæjarins í gegnum innri upplýsingakerfi. Markmiðið að auka upplýsingaflæði og auðvelda dagleg störf og stuðning við fjölbreytta starfsemi bæjarins.

2. Skipulag og stækkun hafnarsvæðis þar sem óskað er eftir námsmanni til að huga að skipulagi hafnarsvæðisins og stækkunarmöguleikum, þ.m.t. söfnun upplýsinga um stórskipahöfn. Jafnframt felst í verkefninu greining á stöðu Vestmannaeyjahafnar í samanburði við aðrar hafnir á landinu. Verkefnið er unnið í samráði við hafnarstjóra Vestmannaeyjabæjar og felst í upplýsingaöflun, mati á umfangi og gerð kostnaðaráætlunar.

3. Skráning örnefna í samvinnu við Landmælingar Íslands og skráning safnkosts Náttúrugripasafns. Hópur áhugamanna hefur undanfarin ár unnið að söfnun örnefna í Vestmannaeyjum. Óskað er eftir nemanda til að færa helstu örnefni inn í kortasjá Landmælinga Íslands og QPR merkja þau. Skráning fer fram í gagnagrunni Landmælinga og verður einnig aðgengileg á vefsvæði Vestmannaeyjabæjar. Jafnframt heldur nemandinn utan um vinnu 5-7 manna áhugahóps sem hittist reglulega til að fara yfir verkefnið. Þá er viðkomandi ætlað að skrá safnkost Náttúrugripasafns Vestmannaeyja með nýjum hætti og miðla í gegnum upplýsingakerfi safnsins, snertiskjái.

4. Grænar lausnir í fráveitu og hönnun þeirra. Greina og móta tillögur að grænum ofanvatnslausnum í fráveitukerfi Vestmannaeyjabæjar með því markmiði að minnka dælingu á regnvatni og spara þar með orku og kostnað. Einnig að hanna tvöfalt kerfi í götum þar sem einfalt kerfi er til staðar. Fráveitukerfi Vestmannaeyjabæjar er uppbyggt af tvöföldu kerfi að litlum hluta og finna þarf hagkvæmar lausnir á því sem ekki er tvískipt. Tilvalið fyrir verk- eða tæknifræðinema. Viðkomandi þarf að geta unnið við teikniforrit, t.d. MIcrostation.

Óskað er eftir kraftmiklum og áhugasömum einstaklingum og eru jafnt konur sem karlar hvattir til að sækja um.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Eydís Ósk Sigurðardóttir, mannauðsstjóri, í síma 488-2000 eða á netfangið: eydis@vestmannaeyjar.is

Umsóknum ásamt menntunar- og starfsferilskrám skal skila til bæjarskrifstofa Vestmannaeyja, Bárustíg 15, 900 Vestmannaeyjum og merkja „sumarstörf fyrir námsmenn á háskólastigi“. Einnig er hægt að skila umsóknum á netfangið postur@vestmannaeyjar.is Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin

Umsóknarfrestur er til og með 25. maí nk.