Alfreð með glæsilega sýningu á List án landamæra
Þann 11.október s.l. var listahátíðin List án Landamæra haldin með pompi og prakt í Gerðubergi, Reykjavík.
List án Landamæra er árleg hátíð sem leggur alfarið áherslu á list fatlaðs fólks. Í ár tók eyjamaðurinn Alfreð Geirsson þátt í hátíðinni með hvorki meira né minna en 15 verk. Alfreð hefur fundið sig í myndlistakennslu hjá Ásgeiri Má Ólafssyni sem hóf störf hjá Heimaey í byrjun þessa árs. Í myndlista kennslunni eru skjólstæðingar Heimaeyjar að læra allt sem tengist myndlist og myndlistasögu. Síðan vinna þau verk út frá kennslu dagsins og kynnast þannig listinni enn betur.
Alfreð hefur tekið vel í þessa tíma en verk hans eru að mestu sjálfsprottin eftir að hafa fengið að kynnast hinum ýmsu listastefnum og listamönnum. Verkin hans eru litrík og mikil hreyfing og ávallt út frá kassa eða húsi. Alfreð vill helst vinna með tússliti á þykkum vatnslitapappír og getur hann gleymt sér í listsköpun sinni tímunum saman.
Við hjá Heimaey erum einstaklega stolt að Alfreð hafi fengið svona stóran sess á þessari Listahátíð en heill veggur var tileinnkaður hans verkum. Við áttum flotta fulltrúa á hátíðinni en einnig fóru frá okkur nokkrir skúlptúrar eftir aðra listamenn Heimaeyjar.
Hægt er að fylgjast með lista fólkinu i gegnum samfélagsmiðla eins og instagram og facebook undir nafninu Heimaey - vinnu og hæfingarstöð en þar er ávallt valinn listamaður vikunnar sem sýnir þá sín verk sem hafa verið unnin út frá kennsluefni vikunnar ásamt annarri vinnu í Heimaey. Verkin eru yfirleitt til sölu og rennur allur ágóði í sjóð sem listamennirnir geta nýtt sér til skemmtunar seinna.