22. ágúst 2024

Að brúka bekki í Vestmannaeyjum

Félag Íslenskra Sjúkraþjálfara (FÍSÞ) varð 70 ára árið 2010 og ákváðu að því tilefni að fara af stað með verkefnið „ Að brúka bekki“ í samstarfi við Félag eldri borgara, sem hvatningu til aukinnar hreyfingar og hagsbóta fyrir almenning. 

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að með því að stunda reglubundna hreyfingu helst eldra fólk hressara og heilbrigðara lengur, er lengur sjálfbjarga og getur dvalið lengur heima. Það er því til mikils að vinna fyrir eldra fólk að hreyfa sig reglulega, m.a. með því að ganga úti.

Tvær íslenskar rannsóknir hafa einnig leitt í ljós að eitt það helsta sem hindrar eldra fólk til göngu sér til heilsubótar er skortur á bekkjum til hvíldar.

Hugmynd verkefnisins „Að brúka bekki“ er að kortleggja 1 km gönguleiðir, sem henta eldri borgurum og öðrum sem lakir eru til gangs, þar sem tryggt er að ekki sé meira en um 250 m á milli bekkja. Þannig er forsenda fyrir að fleiri einstaklingar treysti sér til að ganga úti og láti takmarkaða göngugetu ekki hindra sig í að drífa sig út í góðan göngutúr. Þar sem það er stutt í næsta bekk.

Í Vestmannaeyjum hafa tvær leiðir verið settar upp, önnur í nálægð við þjónustuíbúðir aldraðra við Foldahraun og önnur um miðbæinn milli Stakkagerðistúns og Vigtartorgs. Kort af leiðunum má sjá hér að neðan.

Miðbæjarleiðin

Midbaer

Foldahraunshringurinn

Foldahraun

Kvenfélagið Heimaey gaf 5 bekki til verkefnisins en auk þess hafa þrjár fjölskyldur gefið hver sinn bekk. Miðbæjarleiðin var vígð í sumar með formlegum hætti þar sem boðið var uppá kaffi og bakkelsi.

Þrjár leiðir til viðbótar hafa verið skilgreindar og fyrirhugað er að innleiða þær eftir því sem styrkir fást fyrir bekkjum. Hafi einstaklingar eða fyrirtæki áhuga á að styrkja gerð leiða með kaupum á bekkjum er bent á að hafa samband við Umhverfis- og framkvæmdasvið bæjarins (umhverfissvid@vestmannaeyjar.is).

Á vefsíðu FÍSÞ eru yngri aðstandendur hvattir til að aðstoða hina eldri við að finna kortin á vefsíðunni, prenta út og jafnvel ganga með þeim fyrsta hringinn.

Ólöf A. Elíasdóttir og Anna Hulda Ingadóttir áttu frumkvæðið að innleiðingu verkefnisins í Vestmannaeyjum og hafa drifið verkefnið áfram. Vestmannaeyjabær þakkar þeim kærlega fyrir jákvætt framtak til þágu samfélagins og hvetur íbúa til að prófa gönguleiðirnar. 


Jafnlaunavottun Learncove