40 ára afmælishátíð Fiska-og náttúrugripasafnsins.
Afmælisræða safnvarðar Kristjáns Egilssonar
Ágætu gestir. Ég býð ykkur velkomin í Náttúrugripasafnið.
Í ár eru liðni 40 ár frá stofnun safnsins. Mun ég á næstu mínútum stikla á stóru í sögu Fiska- og náttúrugripasafns Vestmannaeyja.
Fiska- og náttúrugripasafnið er til húsa að Heiðarvegi 12 eins og kunnugt er og hefur til umráða efri hæð hússins.
Hér á neðri hæðinn voru framleidd þorskanet úr hampi og við þann starfan unnu 15-20 stúlkur á vélum. En þegar nælonnetin fara að berast til landsins frá Japan um 1960 lagðist starfsemin niður og komst húsið í eigu Vestmannaeyjabæjar.
Húsið var í nokkur ár hálfgert vandræðabarn á vegum bæjarins, því mönnum greindi á hvaða starfsemi ætti að fara þar fram, en 5 júní 1964 er það samþykkt á bæjarstjórnarfundi að frumkvæði Guðlaugs Gíslasonar bæjarstjóra, tilllaga þess efnis, að bæjarstjórn samþykkti að beita sér fyrir stofnun náttúrugripasafns í Vestmannaeyjum, þar sem einnig væri safn lifandi fiska og sjávardýra. Var tillagan samþykkt með 9 samhljóða atkvæðum. Ennfremur var samþykkt á þessum sama fundi að ráða Friðrik Jesson íþróttakennara frá og með 1. september 1964 til að undirbúa málið og veita safninu forstöðu þegar til kæmi.
Friðrik starfaði við Náttúrugripasafnið í 26 ár frá stofnun þess til 24. janúar 1990, er hann lét af störfum þá 84 ára gamall. Eignkona hans Magnea Sjöberg starfaði við hlið hans í safninu allan þann tíma, en þau létu bæði af ströfum sama dag.
9. febrúar 1965 er safnið formlega opnað fyrir almenning, þ.e.a.s. þessi salur sem við erum í, en Friðrik stoppaði flest þau dýr sem eru til sýnis.
7. apríl 1965 var lokið við innréttingu í fiskasal og smíði á kerjum. Kerin er 12 að tölu og taka samtals 40 tonn af sjó. Sjónum er dælt inn í safnið úr 30 metra djúpri borholu skammt frá safninu og dælir hún um 500 tonnum á sólahring af 7° heitum sjó.
Öflun á tærum sjó er í flestum tilfellum erfiðasta og dýrasta vandamál við rekstur sædýrasafna. Víða hvar erlendis er sjórinn ýmist hreinsaður með miklum tilfæringum eða búinn til, sem er ekki minna mál.
Árið 1986 var opnuð ný deild í safninu, sem geymir steinasafn hjónanna Unnar Pálsdóttur og Sveins Guðmundssonar, sem þau höfðu ánafnað Vestmannaeyjabæ.
Stærsti hluti safnsins eru skrautsteinar og hefur steinasafnið vakið mikla hrifningu safngesta.
Náttúrugripasafnið hefur ekki eingöngu haft þýðingu sem ferðamannastaður. Skólarnir í Eyjum hafa í æ ríkara mæli nýtt sér safnið til fræðslu fyrir yngstu börnin.
Þá hefur verið unnið að rannsóknarstörfum í safninu á líferni fiska, vaxtarhraða þeirra, atferli o.fl.
Í safninu hafa menn orðið vitni að náttúruundrum sem varpað hafa nýju ljósi á ýmislegt í líferni margvíslegra fiskitegunda. Um hrygingu og atferli sumra tegunda fiska var lítið vitað fyrir tilkomu náttúrugripasafnsins. Fjöldi fisktegunda hefur hryngt í sanfinu og við það hafa menn orðið vitni að ýmsu í ástarlífi fiskanna, sem var ekki vitað áður.
Friðrik Jesson tók fyrstur manna eftir því, þegar hann fylgdist með loðnu í safninu um hrygningartímann, að hægurinn festir sig við hrygnuna meðan á pörun stendur, en það höfðu menn ekki vitað áður. En merkilegasta uppgötvunin er þó líklega hrygning og frjóvgun hjá steinbítnum, en þar á sér stað innri frjóvun með miklum tilþrifum fiskanna. Því atferli var fylgst með á safninu, en áður var lítið vitað hvernig frjóvgun hjá steinbítum ætti sér stað.
Þá hefur blágóma hrygnt í safninu og er talið að menn hafi ekki annarsstaðar orðið vitni að hrygningu hennar.
Meðal rannsókna sem unnar hafa verið í safninu eru þorskrannsóknir í samvinnu við Hafró.
Friðrik og Magnea voru afar samhendin hjón og náttúrugripasafnið var þeirra sameiginlega starf og áhugamál.
Sem dæmi um umhyggju þeirra fyrir safninu má nefna, að þegar eldgosið braust út á Heimaey 23. janúar 1973 voru þau hér í Eyjum mestallt gostímabilið.
Þau bjuggu um sig og sváfu hér í safninu fyrstu vikurnar eftir að gos hófst. En þegar fór að bera á gasmengun hér inni fluttu þau svefnstað sinn þvert yfir götuna í hótel HB, sem nú er Stjórnsýsluhúsið.
En að flytja muni safnsins brott frá Eyjum kom ekki til greina að þeirra mati, nema þá í allra síðustu lög.
Það var notarleg tilfinning og hvetjandi fyrir það fólk sem hér starfaði við björgun verðmæta, að vita af Magneu og Friðriki í safninu alla daga og allt hér inni var með sömu ummerkjum og fyrr á meðan allar aðrar byggingar stóðu auðar og yfirgefna.
Þegar Heimaeyjargosið stóð sem hæst þá kom hingað til Eyja franskur eldfjallafræðingur. Var hann sendur hingað á vegum Sameinuðu þjóðanna og átti hann að vera íslenskum vísindamönnum og bæjarstjórn til halds og trausts í baráttunni við eldan.
Strax við komuna bar hann sig mannalega og taldi sig vita allt manna best um hegðun eldfjalla og að íslenskir jarðfræðingar væru óttalegir kjánar.
Að kvöldi fyrsta dags bjó hann um sig og svaf hér í safninu ásamt fleiri vísindamönnum. Þeir sváfu inni í fiskasalnum. Þegar fransmaðurinn vaknaði snemma morguninn eftir var það fyrsta sem hann sá þegar hann opnaði augun, gapandi steinbítar, sem af forvitni góndu á hann út við glerið á búrinu.
Varð honum svo mikið um þessa sjón, að hann rauk út með miklum óhljóðum og linnti ekki látum fyrr en hann komst með fyrstu vél frá Eyjum.
Í látunum skildi hann eftir allt sitt hafurtask, þar á meðal forlátar asbest búning, sem hann hugðist nota til að ganga inn í eldinn.
Nokkrum dögum eftir flóttann frá Eyjum kom grein í franskt dagblað þar sem Frakkinn heldur því fram að allt væri að fara til fjandans í Vestmannaeyjum og Heimaey spryngi í loft upp innan fárra daga.
Þegar farið var að grenslast fyrir um hinn fræga vísindamann, kom í ljós að hann var enginn vísindamaður þaðan af síður eldfjallafræðingur. En skýringin á komu hans til Eyja var að einhver embættismaður hjá hjálparstofnun Sameinuðu þjóðanna hafði haft samband við hann eftir að hafa séð mynd af honum í tímariti íklæddan heljar miklum asbestbúningi og í fjarska sást glóandi eldfjall. Taldi því embættismaðurinn að þar væri kominn sá eini sem gæti bjargða öllu í Vestmannaeyjum.
Ég vil að lokum nota tækifærið til að þakka þeim fjölmörgu sem safnað hafa og gefið náttúrumuni, margir hverjir ómetanlegir.
Sjómönnum vil ég þakka mikinn áhuga og velvilja sem þeir hafa sýnt safninu frá upphafi.
Vestmannaeyjum, 4. júlí 2004.
Kristján Egilsson, safnvörður.
Fræðslu og menningarsvið