"Hjólað í vinnuna" hvatningaverkefni ÍSÍ
Starfsmenn Samskipa í Vestmannaeyjum var eina fyrirtækið sem tók þátt í verkefninu í fyrra. Hvetjum fyrirtæki til þátttöku í ár.
Dagana 2. -13. maí n. k. stendur fræðslu- og hvatningarverkefni ÍSÍ, Ísland á iði fyrir fyrirtækjakeppninni ? Hjólað í vinnuna". Meginmarkmið ?Hjólað í vinnuna" er að vekja athygli á hjólreiðum sem heilsusamlegum, hagkvæmum og umhverfisvænum samgöngumáta. Keppnin er byggð í kringum heimasíðu verkefnisins sem vistuð er á isisport.is Keppt er í 6 fyrirtækjaflokkum um flesta daga og flesta km, hlutfallslega miðað við fjölda starfsmanna í fyrirtækum.
Á síðasta ári tóku starfsmenn Samskipa í Vestmannaeyjum þátt, eina fyrirtækið frá Eyjum. En á landinu öllu tóku 162 fyrirtæki og stofnanir frá 29 sveitarfélögum þátt í keppninni.
Það er von okkar að í ár takist okkur að fá mun fleiri fyrirtæki hér í Eyjum til að vera með. Við viljum því hvetja öll fyrirtæki og stofnanir bæjarins til að kynna sér þetta verkefni og taka þátt í fjörinu.
Gaman væri t.d. ef fyrirtæki myndu skora hvort á annað í keppni. Nú er bara að fara að huga að hjólinu og gera það klárt fyrir keppnina.
Nánari upplýsingar um ?Hjólað í vinnuna" er að finna á isisport.is
Ólöf A. Elíasdóttir íþrótta- og æskulýðsfulltrúi
Fæðslu- og menningarsvið Vestmannaeyja.