Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3127

Haldinn Fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð.,
25.05.2020 og hófst hann kl. 16:00
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson formaður,
Jóna S. Guðmundsdóttir varaformaður,
Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri,
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 202002051 - Málefni Hraunbúða
Frá árinu 2010 hefur Vestmannaeyjabær greitt rúmlega 500 m.kr. með rekstri Hraunbúða, sem lögum skv. ríkið ber ábyrgð á og ríkissjóður á að greiða fyrir. Kröfur ríkisins til þjónustunnar hafa aukist mikið undanfarin ár, en framlög til starfseminnar staðið í stað. Við þetta verður ekki unað og ósanngjarnt að skattgreiðendur í Vestmannaeyjum greiði fyrir þjónustu sem ríkið ber ábyrgð á.

Fyrirhugaður er fundur bæjarráðs og heilbrigðisráðherra um málefni Hraunbúða. Gert er ráð fyrir að fundað verði í byrjun júní.

Samningur milli Sjúkratrygginga Íslands og Vestmannaeyjabæjar um rekstur Hraunbúða fellur úr gildi í nóvember 2020. Endurnýjunarákvæði eru í samningnum sem heimila að framlengja honum um eitt ár í senn. Tilkynna verður um hvort samningurinn verði endurnýjaður fyrir 4. júní nk.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir samhljóða að tilkynna Sjúkratryggingum Íslands og heilbrigðisráðherra um að bærinn muni ekki óska eftir framlengingu á rekstrarsamningi milli SÍ og Vestmannaeyjabæjar um rekstur Hraunbúða. Bæjarstjóra er falið að koma þeim upplýsingum til ráðherra eftir fund bæjarstjórnarþann 28. maí nk.

Það er von bæjarráðs að þegar Sjúkratryggingar Íslands taka yfir rekstur Hraunbúða næsta vetur, verði tryggt að þjónustan skerðist ekki frá því sem nú er.
2. 202005044 - Fjögurra mánaða uppgjör Vestmannaeyjabæjar
Bæjarráð tók fyrir rekstraryfirlit A-hluta fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins. Bókfærðar tekjur eru að mestu leyti í samræmi við áætlun, en tekjur af þjónustu eru þó undir áætlun. Skýrist það m.a. af því að gjöld fyrir leikskóla, skólamáltíðir og Frístund voru aðeins innheimt að hluta vegna Covid-19.
Rekstrargjöld eru líka á pari við áætlun. Launakostnaður er þó hærri en áætlun gerir ráð fyrir sem skýrist af veikindalaunum tengdum Covid-19 annars vegar og kjarasamningstengdum launahækkunum hins vegar. Hvorki er gert ráð fyrir hækkunum við gerð nýrra kjarasamninga né veikindalaunum í fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar.

Rekstrarniðurstaða eftir fjóra mánuði er jákvæð, en teikn eru á lofti um breyttar forsendur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Ekki er ólíklegt að framlög úr sjóðnum til Vestmannaeyjabæjar muni skerðast um 80-90 m.kr. vegna áhrifa Covid-19 á veltu sjóðsins.Framkvæmdastjórn bæjarins mun fylgjast náið með þróun tekna og gjalda næstu mánuðina og upplýsa bæjarráð reglulega um stöðuna.

Niðurstaða
Bæjarráð þakka yfirferðina og mun fylgjast náið með þróun og stöðu mála á næstu mánuðum.
3. 201909118 - Húsnæðismál Vestmannaeyjabæjar
Bæjarstjóri kynnti fyrir bæjarráði drög að samkomulagi milli Vestmannaeyjabæjar og Íslandsbanka um kaup á húsnæði bankans við Kirkjuveg, sem hugsuð yrðu sem starfsaðstaða fyrir hluta af starfsemi bæjarskrifstofa Vestmannaeyja. Málið verður tekið til afgreiðslu á næsta bæjarstjórnarfundi sem haldinn verður þann 28. maí nk. Samkomulagið er gert með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.

Bókun frá fulltrúa D lista
Undirrituð gagnrýnir skort á upplýsingagjöf til bæjarfulltrúa vegna yfirvofandi mögulegra kaupa og stefnubreytingar í húsnæðismálum sveitarfélagsins. Öllum bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins hefur ekki verið kynnt nýting á húsnæðinu, hver kostnaður við breytingar og endurbætur á húsnæðinu muni verða né framtíðarrekstrarkostnaður.
Nú þegar er búið að að verja fimm milljónum til hönnunar á húsnæði á þriðju hæð Fiskiðjunnar til að öll starfsemi bæjarskrifstofa Vestmannaeyjabæjar gæti sameinast undir einu þaki en slíkt felur í sér tækifæri til rekstrarhagræðingar, samþættingar og styttri boðleiða milli starfsfólks.
Ljóst er að húsnæði Íslandsbanka nægir ekki fyrir alla ofangreinda starfsemi en upplýst var á fundinum að áætlað er að fjölskyldu- og fræðslusvið flytji starfsemi sína í húsnæði Íslandsbanka en í dag standa yfir kostnaðarsamar framkvæmdir vegna breytinga á skrifstofuhúsnæði þeirra sviða í núverandi húsnæði á Rauðagerði. Slíkt er óábyrg meðferð almannafjármuna líkt og bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa áður bent á. Vestmannaeyjabær á og rekur mikinn fjölda eigna sem er kostnaðarsamur í rekstri og viðhaldi. Mikið væri unnið með því að draga úr kostnaðarsömu eignarhaldi Vestmannaeyjabæjar á fjölda fasteigna í stað þess að auka það.
(Sign. Hildur Sólveig Sigurðardóttir)

Bókun frá fulltrúum H og E lista
Í umræðum í bæjarráði kom fram að bæjarstjóri mun fyrir fund bæjarstjórnar n.k. fimmtudag leggja fyrir minnisblað um þá valkosti sem eru um framtíðarskipulag húsnæðis stjórnsýslu Vestmannaeyjabæjar, m.a. að nýta 1. hæð húss Íslandsbanka og eldhúsaðstöðu á 2. hæðinni fyrir hluta af starfsemi bæjarskrifstofa sem og fræðslu- og fjölskyldusviðs Vestmannaeyjabæjar. Með því verður öll aðstaða starfsfólks og viðskiptavina til fyrirmyndar. Aðgengi að húsnæðinu er gott og verður starfsmannarými aðlagað að þörfum starfseminnar.
(Sign. Njáll Ragnarsson og Jóna Sigríður Guðmundsdóttir)

4. 202003036 - Viðbrögð vegna veiruógnunar
Bæjarstjóri fór yfir stöðuna í tenglsum við Covid 19. Búið er að afléttta neyðarstigi á landinu og fyrirhugaðar frekari tilslakanir á samkomubanni. Agerðastjórn var virk í 9 vikur, en hefur nú lokið störfum. Aðgerðastjórnin verður virkjuð að nýju ef þörf krefur. Ekkert smit hefur greinst í Vestmannaeyjum síðan 20. apríl sl., en samanlagt greindust 105 smit síðan veirunnar varð vart. Allir umræddir einstaklingar hafa náð bata en einhverjir eru í sóttkví þar sem þeir voru að koma erlendis frá.

Staðan á vinnumarkaði Í Eyjum
Atvinnuleysi hefur aukist í Vestmannaeyjum eins og annars staðar vegna faraldursins. Í nýustu tölum frá Vinnumálstofnun kemur fram að í lok apríl hafi 119 verið á atvinnuleysisskrá og 278 á hlutabótaleiðinni. Í mars var 5,9% atvinnuleysi, en 11,5 % í apríl. Spáin fyrir mai er 9,4%. Í spánni fyrir hlutabólaleiðina í maí er gert ráð fyrir um 116 einstaklinga, þ.e. úr 278 einstaklingum í 162.

Bæjarstjóri fór yfir fund með formanni og framkvæmdastjóra ÍBV Íþróttafélags um áætlað tekjutap ÍBV í tengslum við Covid 19.

Bæjarstjóra barst þakkarbréf frá HSU til Vestmanneyjabæjar vegna aðstoðar í tengslum við sýnatökur og vinnu vegna Covid 19. Starfsfólk HSU hefur staðið vaktina við mjög efiðar aðstæður, sem sýnir enn og aftur mikilvægi þess að til staðar sé öflugt sjúkrahús og heilsugæslu í Vestmannaeyjum. Bæjarráð kom fram þakklæti til starfsfólks HSU á fundi með framkvæmdastjórn stofnunarinnar á fundi sem haldinn var á dögunum.

Fyrirkomulag bæjarhátíða og viðburða í Eyjum.
Vestmanneyjabær hefur ákveðið að halda í sumar þá viðburði sem haldnir hafa verið undanfarin ár, þ.e. hátíð vegna Þjóðhátíðardagsins, 17. júní og goslokahátið. Sjómannadagsráð mun halda sjómanndagshelgina hátíðlega, en með breyttu sniði þó. Einnig hefur IBV Íþróttafélag gefið út að pæjumót og Orkumótið verði haldin í júnímánuði. Verða allir þessir viðburðir aðlagaðir að þeim reglum og takmörkunum sem verða í gíldi.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar bæjarstjóra yfirferðina og telur mikilvægt að fylgjast vel með þrónun atvinnumála í Vestmannaeyjum.

Bæjárráð fagnar þakkarbréfi frá HSU og lýsir mikilli ánægju með framlag starfsfólks stofnunarinnar á þessum erfiðu tímum.
Þakkarbréf HSU.pdf
5. 202004076 - Markaðsátak í ferðaþjónustu 2020
Vestmannaeyjabær gerði á dögunum samning við Ferðamálasamtök Vestmannaeyja um sérstakt markaðsátak í feðaþjónustu skv. tilboði auglýsingastofunnar Hvíta hússins, um hönnun, gerð og framkvæmd átaksins og birtingaáætlun auglýsinga og upplýsinga um Vestmannaeyjar í hinum ýmsu miðlum. Átakið er langt komið og m.a. búið að opna nýja vefsíðu visitvestmannaeyjar.is. Þar að auki samþykkti Vestmannaeyjabær að veita Ferðamálasamtökunum styrk til kaupa á sérstökum snertiskjám sem komið verði fyrir víða um eyjuna og þjóna hlutverki upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn. Um er að ræða nýjung í miðlun upplýsinga fyrir ferðamenn sem heimsækja Vestmannaeyjar. Er hugmyndin að koma fyrir um 10 snertiskjáum á fjölfarna staði og merkja þá vel.

Vestmannaeyjabæ barst á dögunum erindi frá Markaðsstofu Suðurlands þar sem óskað er eftir fjármagni, m.a. til markaðssetningar á landshlutanum innanlands sem viðbragð við Covid 19. Óskað er eftir stuðningi að upphæð 418.530 kr., sem skiptist í 75.000 kr. grunnframlag hvers sveitarfélags og 80 kr. framlags hvers íbúa.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.

Bæjarráð getur ekki orðið við beiðni Markaðsstofu Suðurlands þar sem þegar hefur verið ákveðið að ráðast í markaðsátak í samstarfi við Ferðamálasamtök Vestmannaeyja sem samþykkt var á fundi ráðsins þann 21. apríl sl.
6. 201906043 - Skipan stjórnar Herjólfs
Bæjarstjóri greindi frá hvaða einstaklingar sendu inn framboð til stjórnar Herjólfs ohf., sem kosin verður á aðalfundi félagsins þann 27. maí nk. Allir stjórnarmenn núverandi stjórnar hafa boðið sig fram til áframhaldandi stjórnarsetu í félaginu:

Arnar Pétursson
Guðlaugur Friðþórsson
Agnes Einarsdóttir
Páll Guðmundsson
Arndís Bára Ingimarsdóttir

í varastjórn
Aníta Jóhannsdóttir
Birna Þórsdóttir Vídó

Bæjarstjóri, sem hluthafi félagsins, mun legga umrædd nöfn fyrir á aðalfundi Herjólfs ohf. þann 27. maí nk.

Niðurstaða
Bæjarráð fagnar áhuga og framboði núverandi stjórnarmanna til áframhaldandi stjórnar í félaginu. Samvinna stjórnarinnar hefur verið til mikillar fyrirmyndar og mikilvægt að viðhalda slíkri samvinnu í félagi sem glímir við krefjandi verkefni á tímum sem þessum. Starfsemi Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. er ein sú mikilvægasta fyrir samfélagið og nauðsynlegt að gott fólk með breiða skírskotun og fjölbreytta reynslu veljist til stjórnarstarfa fyrir félagið.

Bókun frá fulltrúa D lista
Ánægjulegt er að nú í fyrsta skipti frá því að nýr meirihluti tók við sé kynnt um stjórnarskipan Herjólfs ohf. á opinberum fundi sveitarfélagsins.
(Sign. Hildur Sólveig Sigurðardóttir)
7. 202004086 - Þjónustumiðstöð við Suðurlandsveg
Bæjarráð ræddi hugmyndir og tillögur um þjónustumiðstöð á gatnamótun Suðurlandsvegar og Landeyjahafnarvegar, svokallað Laufeyjarverkefni. Sveinn Waage, einn forsprakka verkefnisins, hefur kynnt hugmyndirnar fyrir bæjarfulltrúum Vestmannaeyjabæjar, þar sem gert er ráð fyrir nýrri tegund þjónustumiðstöðvar, sem tekur m.a. mið af umhverfissjónarmiðum og fellur vel inn í landslagið.

Niðurstaða
Bæjarráð fagnar frumkvæði aðila að þjónustumiðstöð við Suðurlandsveg. Bæjarráð telur ekki unnt á þessum tímapunkti að fjárfesta í verkefninu né veita sérstakar fjárveitingar til þess. Bæjarráð er hins vegar reiðubúið til viðræðna við aðila verkefnisins um annars konar aðkomu, hvort sem það er í formi hvatningar, viðræðna við stjórnvöld um þátttöku eða annað.
8. 201904050 - Bæjarlistamaður Vestmannaeyja
Vestmannaeyjabær auglýsti á dögunum eftir umsóknum og tillögum um bæjarlistamann fyrir árið 2020. Alls bárust 8 umsóknir og tillögur, þ.a tvær um sama bæjarlistamanninn. Alls stendur valið því um 7 umsóknir um bæjarlistamenn.

Niðurstaða
Bæjarráð lýsir ánægju með þær umsóknir og tilnefningar sem bárust á þessu ári. Ljóst er heilmikil gróska er í menningu og listum í Vestmannaeyjum. Bæjarráð tók ákvörðun um bæjarlistamann úr þessum hópi frábærra listamanna, en tilkynnt verður um valið þann 1.júní nk., kl. 16:00 í Eldheimum.
9. 202005033 - Innkaupareglur Vestmannaeyjabæjar
Á fundi bæjarráðs sem haldinn var 14. maí sl., voru tekin fyrir drög að nýjum innkaupareglum Vestmannaeyjabæjar. Ákveðið var á þeim fundi að taka reglurnar fyrir til samþykktar á þessum fundi bæjarráðs.

Gerðar voru breytingar á lögum um opinber innkaup árið 2016, sem tóku að fullu gildi vorið 2019 og kölluðu á uppfærðar innkaupareglur sveitarfélaga, m.a. um innlendar viðmiðunarfjárhæðir og innkaupaaðferðir. Að auki var unnin sérstök innkaupastefna sem birtist nú sem hluti innkaupareglnanna.

Innkaupareglurnar eru unnar að fyrirmynd Sambands íslenskra sveitarfélaga og staðfærðar með þarfir og vinnulag Vestmannaeyjabæjar að leiðarljósi.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir innkaupastefnu og innkaupareglur Vestmannaeyjabæjar. Munu reglurnar leysa af eldri innkaupareglur Vestmannaeyjabæjar og taka gildi nú þegar.

Framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs er falið að upplýsa forstöðumenn stofnana Vestmannaeyjabæjar um reglurnar.

Bókun frá fulltrúa D lista
Undirrituð lýsir yfir ánægju með að ekki hafi verið farið í kostnaðarsama aðkeypta þjónustu vegna vinnu við gerð innkaupastefnu og innkaupareglna sveitarfélagsins.
(Sign. Hildur Sólveig Sigurðardóttir)
Drög að innkaupareglum Vestmannaeyjabæjar 2020.pdf
10. 201904142 - Umsagnir frá Alþingi - bæjarráð
Þann 13. maí sl. sendi nefndarsvið Alþingis til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, 776. mál (átak í fráveitumálum). Þann 15. maí sl., sendi Samband íslenskra sveitarfélaga umsögn um frumvarpið. Sama dag sendi bæjarstjóri, f.h. Vestmannaeyjabæjar, umsögn þar sem tekið er undir umsögn Sambandsins. Mælt er með að Alþingi samþykki frumvarpið og geri ráð fyrir nægjanlegu fjármagni í fjármálaáætlun 2021-2025 til þess að áformin nái fram að ganga. Þá hvetur Vestmannaeyjabær Alþingi til að skoða með jákvæðum huga endurgreiðslu virðisaukaskatts til handa sveitarfélögum vegna fráveituframkvæmda og tryggja að umsóknarferlið verði eins gagnsætt og fyrirsjáanlegt og kostur er.

Til kynningar þann 15. maí sl., sendi nefndarsvið Alþingis jafnframt til umsagnar frumvarp til laga um fjarskipti, 775. mál. Frestur til að skila inn umsögn er 5. júní nk.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar um umsögn bæjarstjóra um frumvarp um breytingu á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna.
Umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna (átak í fráveitumálum).pdf
Til umsagnar - þingmál 776. um uppbyggingu og rekstur fráveitna.pdf
Til umsagnar - þingmál 775. um frumvarp um fjarskiptamál.pdf
11. 202005064 - Beiðni um umsögn vegna rekstrarleyfis fyrir Kiwanis
Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hefur óskað eftir umsögn Vestmannaeyjabæjar um umsókn Haralds Bergvinssonar fyrir hönd Kiwanisklúbbsins Helgafells um rekstrarleyfi fyrir Kiwanishúsið vegna reksturs veitingastaðar í flokki II.

Niðurstaða
Bæjarráð veitir umsókninni jákvæða umsögn að því gefnu að farið sé að skilyrðum sýslumanns og með fyrirvara um jákvæða umsögn hlutaðeigandi eftirlitsaðila.

Umsögnin er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi hússins á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.
12. 201904018 - Fundargerðir Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga
Til upplýsinga var lögð fyrir bæjarráð fundargerð nr. 58 frá Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga vegna fundar sem haldinn var 8. maí sl.

Bæjarstjóra barst í dag, til upplýsinga, ársreikningur Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga fyrir árið 2019. Gefinn er frestur til 3. júní nk., til þess að senda athugasemdir ef einhverjar eru. Bæjarstjóri mun senda fulltrúum bæjarráðs ársreikninginn.

stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga - 58.pdf
13. 201907118 - Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga og SASS
Til upplýsinga var lögð fyrir bæjarráð fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga nr. 884 vegna fundar þann 20. maí sl.
stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga - 884.pdf
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:00 

Til baka Prenta