Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3134

Haldinn Fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð.,
19.08.2020 og hófst hann kl. 12:00
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson formaður,
Jóna S. Guðmundsdóttir varaformaður,
Helga Kristín Kolbeins aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri,
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 202003036 - Viðbrögð vegna veiruógnunar
Bæjarstjóri gerði grein fyrir stöðu og viðbrögðum yfirvalda vegna smita í tengslum við kórónaveiruna fyrstu vikurnar í ágúst. Aðgerðastjórn almannavarna var virkjuð og einnig viðbragðsstjórn Vestmannaeyjabæjar. Aðgerðir hafa verið hertar eins og annars staðar á landinu til þess að efla öryggi og vernda þá sem viðkvæmastir eru. Staðan í Vestmannaeyjum er sú að 6 smit greindust fyrstu dagana í ágúst. Ekkert nýtt smit hefur greinst síðan 12. ágúst sl. Allir þeir sem komnir voru í sóttkví í tengslum við þessi smit voru boðaðir í skimun á vegum HSU. Þar að auki fóru rúmlega 500 manns, úr slembiúrtaki, í skimun á vegum Íslenskrar erfðagreiningar og HSU í Vestmannaeyjum. Með þessum tveimur stóru skimunum og hefðbundinni einkennaskimun hjá HSU, hafa vel yfir 600 manns verið skimaðir á nokkrum dögum. Það eru um 14 % íbúa í Vestmannaeyjum. Ekkert samfélagssmit var í Vestmannaeyjum. Eru þetta mjög jákvæðar fréttir fyrir Vestmannaeyinga og sýna að aðgerðir sem gripið var til skiluðu tilætluðum árangri. Þrátt fyrir að staðan sé góð í Vestmannaeyjum, er mikilvægt að halda áfram að fylgja þeim fyrirmælum stjórnvalda sem eru í gildi hverju sinni.

Staðan á vinnumarkaði í Vestmannaeyjum
Dregið hefur úr atvinnuleysi í Vestmannaeyjum í sumar eftir að það hafði aukist til muna á fyrri hluta þessa árs vegna faraldursins. Í nýjustu tölum frá Vinnumálstofnun kemur fram að í lok júlí sl., hafi 94 verið á atvinnuleysisskrá og 22 á hlutabótaleiðinni. Í júlí sl., var 4,1% atvinnuleysi, en 4,3 % í júní. Spáin fyrir ágúst er 4,1%. Hvað varðar hlutabótaleiðina fyrir ágústmánuð gerir spáin ráð fyrir að um 4 einsataklingar verði á hlutabótaleiðinni, sem er fækkun um 18 einstaklinga milli mánaða.

Fjölgun verkefna hjá sýslumanninum í Vestmannaeyjum
Bæjarráð lýsir ánægju með þau viðbótarverkefni sem sýslumannsembættið í Vestmannaeyjum hefur fengið til sín, en fram hefur komið að sýslumanninum hefur verið falið að stýra tilraunaverkefni sem felur í sé að efla og þróa samvinnu sýslumanna, lögreglu, félagsþjónustu og barnaverndar í málum er lúta að velferð og högum barna, með áherslu á vernd barna sem búið hafa við ofbeldi á heimili í forsjármálum. Mikilvægt er að efla starfsemi embættisins með þessum hætti og ánægjulegt að stjórnsýsla ríkisins komi auga á hversu vel hægt er að nýta þekkingu og starfskrafta á landsbyggðinni.
2. 201212068 - Umræða um samgöngumál
Stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Herjólfs ohf. komu á fund bæjarráðs til þess að ræða málefni félagsins, m.a. samstarf og viðræður við Vegagerðina um núverandi þjónustusamning, rekstrarstöðu félagsins, samningaviðræður við Sjómannafélag Íslands um kjaramál háseta, bátsmanna og þerna og framtíðarhorfur nú þegar nær dregur hausti.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar greinargóðar upplýsingar og leggur áherslu á að unnið verði að krafti næstu vikurnar við að greina tekjur og útgjöld félagsins. Fjárhagsstaða félagsins er mjög erfið og miklar áskoranir framundan. Leita þarf allra leiða til að koma rekstrinum á réttan kjöl þannig að félagið verði fjárhagslega sjálfbært án þess að til komi skerðing á ferðatíðni.
3. 202004076 - Markaðsátak í ferðaþjónustu 2020
Fulltrúar ferðaþjónustunnar í Vestmannaeyjum komu á fund bæjarráðs til þess að greina frá stöðu ferðaþjónustunnar og sér í lagi stöðu ferðaþjónustufyrirtækja þegar langt er liðið á sumarið, framtíðarsýn Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja gagnvart starfsemi Markaðsstofu Suðurlands og hvernig horfurnar eru framundan. Ferðaþjónustan ræddi m.a. nauðsyn þess að halda áfram því góða markaðsátaki sem sett var á laggirnar í vor og skilaði góðum árangri. Meðal áherslna í áframhaldandi markaðsátaki er að skilgreina erlenda markhópa og markaðssetja Vestmannaeyjar gagnvart erlendum ferðamönnum.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar fulltrúum ferðaþjónustunnar fyrir upplýsingarnar og felur bæjarstjóra og framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að funda reglulega með ferðaþjónustunni um stöðu mála.
4. 202008024 - Yfirlýsing um að nýta ekki forkaupsrétt á skipi: Bravo VE 160. 2578
Fyrir bæjarráði lá erindi frá 3H ehf. dags. 4. ágúst sl., þar sem Vestmannaeyjabæ er boðinn forkaupsréttur að Bravo VE-160, með vísan til 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Í erindinu kemur fram að verði af sölu skipsins, seljist það án aflahlutdeilda.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar 3H ehf. fyrir upplýsingarnar um fyrirhugaða sölu skipsins og áréttingu um forkaupsrétt Vestmannaeyjabæjar með vísan til laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Þar sem skipið verður selt án aflahlutdeilda telur bæjarráð ekki forsendur fyrir því að nýta forkaupsréttinn í þessu tilviki og fellur því frá honum.
5. 202008026 - Umboð til áritunar á lóðaleigusamning

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkti umboð til handa skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa Vestmannaeyjabæjar um heimild til undirbúnings og undirritunar lóðaleigusamninga f.h. Vestmannaeyjabæjar. Umboðið þarfnast ekki undirritunar bæjarstjórnar, en verður staðfest með staðfestingu fundargerðar bæjarráðs á næsta fundi bæjarstjórnar.
Umboð - lóðarleigusamningar - byggingarfulltrúi.pdf
Umboð - lóðarleigusamnignar - skipulagsfulltrúi.pdf
6. 202008101 - Fundur sveitarstjóra á Suðurlandi með ríkisstjórn Íslands
Haldinn var fundur sveitarstjóra á Suðurlandi með ríkissjórn Íslands þann 18. ágúst sl., um starfsemi sveitarfélaga á tímum Covid-19.

Fram kom í máli ráðherra að skilningur sé á misgóðri fjárhagsstöðu sveitarfélaganna í ljósi áhrifa af Covid-19 á fjárhagsafkomu og atvinnu, en mikilvægt sé að sveitarstjórnir geri allt hvað í þeirri valdi stendur til að halda úti þjónustu við íbúa og fyrirtæki og grípi til aðgerða til að tryggja atvinnu í sveitarfélögunum. Á fundinum lýstu sveitarstjórar jafnframt þungum áhyggjum af stöðu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og skerðingum fjárveitinga úr sjóðnum til sveitarfélaga, sem þegar hefur verið gripið til. Erfitt sé að halda úti þjónustu og atvinnu þegar tekjur eru að minnka og framlög úr Jöfnunarsjóði að skerðast. Búist er við að skerðingar fjárveitinga til Vestmannaeyjabæjar nemi um 137 m.kr. á þessu ári.

Embætti lögreglustjórans í Vestmannaeyjum
Bæjarstjóri Vestmannaeyja beindi þeirri fyrirspurn til dómsmálaráðherra hvenær til stæði að auglýsa embætti lögreglustjórans í Vestmannaeyjum. Kom fram í svari ráðherra að það stæði til að auglýsa embættið á næstu dögum.

Hjúkrunarheimilin
Bæjarstjóri greindi bæjarráði frá því að heilbrigðisráðherra hefði nýlega skipað starfshóp til þess að greina fjármál og starfsemi hjúkrunarheimila á landsbyggðinni, sem ýmist hefðu sagt upp samningum við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur slíkra heimila, eða væru að íhuga það alvarlega. Ljóst er að fjárveitingar ríkisins til reksturs hjúkrunarheimila í umræddum sveitarfélögum duga engan veginn til að veita þá þjónustu sem slíkum stofnunum ber að veita og því þurfi sveitarfélögin að greiða með starfsemi hjúkrunarheimilanna. Það er óásættanlegt. Hefur Vestmannaeyjabær, m.a. sveitarfélaga, sagt upp samningi við Sjúktratyggingar Íslands um rekstur dvalar- og hjúkrunarheimilisins Hraunbúða. Vestmannaeyjabær hefur ítrekað óskað viðbragða frá heilbrigðisráðuneytinu og Sjúktratryggingum Íslands um uppsögn samningsins, en enn er beðið svara. Í fréttum gærdagsins kom fram að Heilbrigðisstofnun Norðurlands komi til með að taka yfir rekstur hjúkrunarheimilisins á Akureyri.

7. 200708078 - Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð
Afgreiðsla trúnaðarmála er færð í sérstaka fundargerð.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:45 

Til baka Prenta