28. maí 2020

Ráðning kennsluráðgjafa

Tekin hefur verið ákvörðun um að ráða Helgu Sigrúnu Þórsdóttur í starf kennsluráðgjafa.

Kennsluráðgjafi starfar sem sérfræðingur á vegum skólaskrifstofu og sinnir hlutverki ráðgjafa við Grunnskóla Vestmannaeyja. Hann sinnir ráðgjöf til skólaskrifstofu, kennara og stjórnenda varðandi nemendur, skipulag og kennslu. Þá sér hann um skimanir, eftirfylgd og skráningu ýmissa mála.

Helga Sigrún útskrifaðist með B.Ed. gráðu í grunnskólakennarafræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 2003. Þá lauk hún Dipl.Ed. í uppeldis- og menntunarfræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 2008 og M.Ed. í sérkennslufræðum við uppeldis- og menntunarfræðideild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands árið 2015. Þá hefur Helga Sigrún sótt ýmiss námskeið frá því hún útskrifaðist sem kennari, m.a. réttindanámskeið fyrir greiningar og skimanir.

Helga Sigrún starfaði í Smáraskóla í Kópavogi frá 2003 til 2013, fyrst sem umsjónarkennari og síðar sem sérkennari. Frá hausti 2013 hefur hún starfað sem sérkennari við Grunnskóla Vestmannaeyja og verið fagstjóri í íslensku frá árinu 2016.

Alls bárust fjórar umsóknir um stöðuna.