18. júní 2021

Hátíðarræða Klaudiu frá 17. júní

Klaudia Beata Wanecka – Ræða 17 júní 2021

Sæl og blessuð, og til hamingju með daginn!

Ég heiti Klaudia og ég vinn sem fjölmenningarfulltrúi hér í Vestmannaeyjum. Ég er móðir, eiginkona, dóttir, systir, vinkona, frænka, tengdadóttir og Vestmannaeyingur? Eða hvað? Hver er skilgreining á því að vera Vestmannaeyingur? Þarf ég að vera fædd hér, alin upp hér farið upp á heimaklett, borðað lunda, skreytt húsið mitt fyrir goslok og farið á þjóðhátíð árlega? Ef svo er þá snar fækkar í hópi Vestmannaeyinga ef uppfylla þarf öll þessi skilyrði. Ég er stoltur Íslendingur, stoltur Pólverji og stoltur Vestmannaeyingur. Ég flutti til Íslands fyrir 13 árum, þá var ég 11 ára gömul. Foreldrar mínir ákváðu að hér vilja þau búa, hér er lífið öruggt og hér gott að vera. Sonur minn, Alexander Aron Wanecki fæddist á Íslandi, þann 13 apríl 2020. Hann er bæði Íslendingur og Pólverji, en ég velti fyrir mér, er eftirnafnið hans sem er ættarnafn föður fjölskyldu hans að fara hafa áhrif á hans líf? Ég velti þessu stundum fyrir mér, maður hefur heyrt um allskonar einelti, mismunun og rasisma í samfélaginu hér í eyjum og á Íslandi á undanförnum mánuðum og árum. Erum við að flokka fólk eftir þeirra uppruna? Erum við að gefa þeim tækifæri að taka þátt í samfélaginu? Eru börnin okkar að taka það upp frá okkur þegar við hendum inn óviðeigandi komment um eitthvað sem við sjáum í sjónvarpinu? Getum við bætt okkur í þessu? Í dag eru margir að flytja til Íslands, vegna þess að fólk leitar að betra lífi og öryggi. Við búum í þéttu samfélagi sem hefur gengið í gegnum margt og stundum er erfitt að hleypa nýju fólki að. Fólkið sem kemur hingað, eignast fjölskyldu hér, börn og vill búa hér og vera hluti af samfélaginu. Erum við tilbúin að taka á móti þeim sem vilja vera með? Viljum við ekki efla mannlífið með þeim fjölbreytileika sem með innflytjendum kemur? Vestmannaeyingar í dag eru eins fjölbreyttir og hægt er að hugsa sér. Vestmannaeyingar eru af fjölbreyttum uppruna og koma meðal annars frá Bretlandi, Litáen, Póllandi, Rúmeníu, Portúgal, Slóveníu, Króatíu, Sviss, Tékklandi eða Kúrdistan. Við getum fagnað fjölbreytileikanum og því sem fylgir honum. Öðruvísi hefðir, matur, hátíðarhöld og miklu miklu fleira. Tímarnir breytast og samfélagið með, sem er jákvæður hlutur. Við erum öll af erlendum uppruna, meira segja innfæddir þar sem fyrstu Íslendingar komu til Íslands frá Noregi. Venjumst því að fólk talar íslensku með hreim, tölum íslensku á móti þegar einhver reynir að tala íslensku við okkur. Verum opin fyrir nýjum Íslendingum, fyrir nýjum Vestmannaeyingum og fögnum fjölmenningunni!

Hatidarraeda-17.-juni-2021

Myndin er frá Tígli