29. júlí 2022

Gleðilega Þjóðhátíð!

Í ár eru 148 ár síðan fyrsta Þjóðhátíðin okkar var haldin. Undanfarin tvö ár hefur þurft að aflýsa hátíðinni vegna heimsfaraldurs og það er því óvenju mikil eftirvænting og alveg sérstök tilfinning fyrir Þjóðhátíðinni í ár. Uppsöfnuð þjóðhátíðarþörf! 

Við fundum öll hvað mikið vantaði inn í sumarið okkar, já eiginlega bara lífið okkar, þessi tvö ár sem hátíðin ver ekki haldin.

Einmitt þetta - þessi langa saga og hefð og þessi órofa tenging við fortíð okkar og þá sem á undan fóru hér í Eyjum - leggur okkur ríkar skyldur á herðar. Við þurfum að hlúa að þessari miklu menningarperlu sem Þjóðhátíðin er. Við erum óendanlega stolt af þessari menningarsöglegu gullkistu. Við virðum sögu hennar og svipmót; hefðir og venjur. Við virðum kynslóðirnar sem héldu þessa hátíð á undan okkur; syngjum sömu lögin og ömmur okkar og afar og borðum meira að segja svipað bakkelsi! Þetta er það sem gerir þessa hátíð að einstakri upplifun. Hátíðin hefur þroskast og dafnað, tilhlökkunin er mikil hjá okkur heimafólki og gestum; að geta mætt í Dalinn og upplifað þessa einstöku hátíð eftir tveggja ára hlé.

Við sem búum í Eyjum og þeir sem hafa tengingar til Eyja þekkjum öll sögu Þjóðhátíðar og mikilvægi hennar og flest eigum við ómetanlegar minningar tengdar hátíðinni. Samvera fjölskyldunnar þegar kynslóðir koma saman njóta þess að vera í Dalnum. Varðveitum þessa menningarperlu og minningarnar og höldum áfram að skapa nýjar. „Verum vakandi“ og skemmtum okkur fallega saman.

Við sjáumst hress í Herjólfsdal „ þó sumarið líði allt of fljótt þá lifir að eilífu þessi Eyjanótt“.

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri