31. desember 2021

2021: Gott ár þrátt fyrir allt!

Mér fannst ég vera vitni að miklum tímamótum þegar ég fékk að vera viðstödd fyrstu covid-19 bólusetninguna á Hraunbúðum fyrir rúmu ári.

Því miður er þó enn ekki runnin upp sú stund að við getum hallað okkur aftur og slakað á. Nú nálgast áramót enn á ný; þau önnur í röðinni undir áhrifum frá heimsfaraldrinum mikla. Fyrir skömmu var ríkjandi bjartsýni um að allt horfði nú til betri vegar en það breyttist eins og hendi væri veifað og því miður erum við aftur að fagna jólum og áramótum með takmörkunum og höftum á samskiptum við ástvini okkar og ættingja.

Það er oft sem við finnum ekki fyrir mikilvægi einhvers fyrr en það er frá okkur tekið. Enginn veit sem sagt hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Hindranalaus og náin samskipti við vini og ættingja höfum við hingað til tekið sem gefin og sjálfsögð. Faraldurinn hefur kennt okkur að svo er ekki; og þá um leið kannski kennt okkur að meta betur hvað þessi mannlegu samskipti eru okkur óendanlega mikilvæg og stór hluti af lífsgæðum okkar. Það er einmitt ekki síst á stórhátíðum eins og jólum og áramótum sem við finnum hvað þessi nánd við ástvini er okkur dýrmæt.

En þó að að þetta bakslag hafi komið í baráttuna við pláguna horfum við enn djörf fram á veginn og trúum því og treystum að betri tíð í þessum efnum sé handan við hornið!

Margt jákvætt á árinu

Margt jákvætt gerðist í bæjarlífinu á því ári sem nú er að renna sitt skeið. Við fengum gott sumar þrátt fyrir takmarkanir; áttum góða mánuði þar sem mikið var um að vera. Fjölmargir heimsóttu okkur yfir hásumarið. Stóru fótboltamótin voru haldin í júní og Goslokahátíð var haldin án takmarkanna og hafta. Vestmannaeyjabær hélt áfram í markaðsátaki með ferðaþjónustunni sem heppnaðist afar vel og miklvægt að horfa til áframhaldandi samvinnu. Stofnað var miðbæjarfélag til að huga að því að fegra og bæta miðbæinn sem er vel.

Verkefnið „Kveikjum neistann“ fór af stað í Grunnskóla Vestmannaeyja og er það eitt mest spennandi rannsóknar- og þróunarverkefni varðandi velferð grunnskólabarna sem í gangi er á Íslandi í dag. Eru kennarar og nemendur í 1. bekk þeir fyrstu sem taka þátt í verkefninu.

Vestmannaeyjabær og Janus-heilsuefling endurnýjuðu samstarfssamning um heilsueflingu og rannsóknarverkefnið „Fjölþætt heilsuefling 65+ í Vestmannaeyjum – Leið að farsælum efri árum". Verkefnið er framhald af tveggja ára verkefni og er Vestmannaeyjabær fyrsta sveitafélagið sem býður íbúum upp á framhaldsnámskeið. Þannig er hugað að þörfum bæði þeirra yngstu og elstu í samfélaginu okkar.

Gleði var í kringum íþróttirnar hjá okkur að vanda. Karlalið ÍBV komst aftur upp í deild þeirra bestu og eigum við því enn á ný bæði karla og kvennalið í efstu deildum bæði í handbolta og fótbolta. Þetta er ótrúleg staða fyrir ekki stærra bæjarfélag.

Samgöngur og hagsmunagæsla

Við fórum í gegnum annan veturinn með nýjan Herjólf sem nú siglir á rafmagninu einu þegar farið er í Landeyjahöfn. Nýr samningur um rekstur Herjólfs var kláraður og gildir til ársins 2023. Landeyjahöfn var í annað skiptið opin yfir allan veturinn, þ.e. hún lokaðist aldrei vegna þess að dýpið væri ekki nægjanlegt. Hefur höfnin því verið opin frá nóvember 2019. Þetta er auðvitað afar mikilvægt en það er líka gríðalega mikilvægt að ljúka úttekt á Landeyjahöfn; klára útfærslu á leiðum til úrbóta og ráðast í framkvæmdir. Svo þarf að huga að því að ljúka rannsóknum varðandi hugsanleg jarðgöng milli lands og Eyja svo hægt sé að horfa til framtíðarlausna í samgöngumálum.

Flugsamgöngur okkar komust aftur í uppnám. Icelandair hætti áætlunarflugi hingað í byrjun september vegna þess að eftirspurnin var ekki næg en nú hefur tekist að koma á lágmarksflugi milli lands og Eyja í vetur. Ég vil þakka samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir skilning og aðstoð í þeim efnum. Flugfélagið Ernir mun annast þetta lágmarksflug fram á sumar, en mikilvægt er að hægt verði að bæta við ferðum. Vegagerðinni hefur verið falið að þarfagreina og vinna aðra forvinnu í tengslum við ákvörðun um hvort farið verði í útboð á ríkisstyrktu flugi, en slíkt fyrirkomulag þarf að samræmast reglum skv. EES-samningnum á þessu sviði. Er það miklvægt skerf til að tryggja áætlunarflug til Eyja til framtíðar.

Á árinu neyddist Vestmannayjabær til að segja sig frá rekstir Hraunbúða vegna þess að framlög ríkisins voru allt of lág og dugðu ekki fyrir rekstrinum. Bærinn hefur greitt hundruði milljóna með rekstrinum á undanförnum árum. Það voru þung skref fyrir Vestmannaeyjabæ að stíga en rekstur er nú í höndum HSU.

Mikil uppbygging og jákvæður baráttuandi

Framkvæmdir á vegum Vestmannaeyjabæjar hafa annað árið í röð verið með því mesta sem sést hefur á einu ári og nema þær rúmlega 900 milljónum króna. Á árinu hefur nánast verið lokið við byggingu á nýrri slökkvistöð sem var löngu tímabær og einnig hafa íbúar flutt inn í þjónustuíbúðir og þjónustukjarna við Strandveg. Áfram var unnið að því að bæta umhverfi og aðstöðu bæjarbúa og má þar nefna uppbygginu á lóð Hamarsskóla og nýjum leikvöllum í hverfum bæjarins. Unnið er á endurbótum á Ráðhúsi Vestmannaeyja og umhverfi þess. Það var meðvituð ákvörðun bæjarins að halda áfram uppi uppi framkvæmda- og atvinnustigi í Vestmannaeyjum á þessu mjög svo sérstöku tímum. Það er jákvæður uppbyggingarandi sem einkennir samfélagið okkar í dag.

Verið er að byggja íbúðarhúsnæði í stórum stíl og spennandi verkefni eru á teikniborðinu varðandi uppbyggingu hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Mikilvægt er að huga að því lögbunda meginhlutverki sem sveitarfélög hafa sem er að veita íbúum sínum þjónustu, góða þjónustu. Þarfir samfélagsins breytast hratt og bærinn þarf að fylgja því eftir.

Framtíðarsýn

Unnið var áfram að nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi. Fablab er komið inná 3. hæð Fiskiðjunnar og spennandi verkefni eru í farvatninu. Afraksturinn af vinnu sem farið hefur fram er fjöldi verkefna sem skapað geta atvinnu í Vestmannaeyjum og jafnframt verðmæti fyrir samfélagið. Nauðsynlegt er að huga að innviðum og var það mikilvægt skref að halda áfram með ljósleiðaravæðingu í Vestmannaeyjum á næsta ári. Það er stórt verkefni sem tekur nokkur ár. Áhersla bæjarstjórnar á þessu kjörtímabili hefur einnig verið á fræðslu- og fjölskyldumál og gott dæmi um það er átak sem ráðist hefur verið í varðandi tölvu- og upplýsingavæðingu GRV. Á kjörtímabilinu hefur tæpum 40 milljónum verið varið til uppbyggingarinnar og nú er GRV í allt annarri og betri stöðu varðandi þennan þátt en fyrir nokkrum árum.

Bjartsýn á næsta ár

Rekstur Vestmannaeyjabæjar hefur gengið vel þrátt fyrir erfitt ár og staða bæjarsjóðs verður því áfram sterk. Gert er ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu á því ári sem nú er að líða; og líka á næsta ári í þeirri fjárhagsáætlun sem samþykkt var nú í desember. Þetta hlýtur að teljast ótrúlega góð niðurstaða á tímum sem við höfum tekist á við bæði covid og loðnubrest. En það skiptir líka miklu máli að veita áfram góða þjónustu við bæjarbúa og halda uppi öflugri hagsmunagæslu fyrir okkar góða sveitarfélag gagnvart ríkisvaldinu.

Vonir standa til þess að á næsta ári verði stór loðnuvertíð. Það skiptir okkar samfélag miklu máli. Ég vil horfa bjartsýn til næsta árs. Á því ári verður ný slökkvistöð vígð, hafin viðbygging við Hamarsskóla og endurbótum á Ráðhúsinu lokið ásamt mörgum öðrum þörfum og spennandi verkefnium. Gaman verður að fylgjast með framgangi ljósleiðaraverkefnisins og uppbyggingu í nýsköpun- og frumkvöðlastarfsemi. Til viðbótar er eitt af stóru verkefnum næsta árs að gera Vestmannaeyjar að enn vænlegri kosti fyrir fólk og fyrirtæki.

Við erum heppin að búa á þessari eyju. Við erum samfélag sem stendur saman þegar mikið bjátar á. Við erum líka „vertíðarfólk“; tökum verkefnin oft með áhlaupi og það gerðum við sannarlega árið 2021. Tökum fagnandi á móti nýju ári sem færir okkur ný tækifæri og nýjar áskoranir.

Ég vil þakka öllum Vestmannaeyingum góða samfylgd á þessu afar sérstaka ári og óska ykkur öllum velfarnaðar á nýja árinu.

Íris Róbertsdóttir
bæjarstjóri