Fara í efni

Gönguleiðir

Áætlaður göngutími
Lóðrétt hækkun
Vegalengd
Hringleið
Gefin leið er frá A til B
Fjölskylduvæn
Erfiðleikastig
Lundi gæti sést

7 tinda gangan

7 tinda gangan er eins og nafnið gefur til kynna, ganga á 7 tinda í Vestmannaeyjum. Byrjað er við Klaufina, fyrst er farinn hringur um Stórhöfða, annar tindurinn er Sæfell, þriðji Helgafell, fjórði Eldfell, fimmti Heimaklettur, sjötti og sjöundi er Dalfjall, endað er í Herjólfsdal.

7 tinda gangan er einnig gengin árlega í stórum hóp í júní/júlí og er það einn af vinsælustu göngu- og hlaupa viðburðum í Vestmannaeyjum ásamt The Puffin Run og Vestmannaeyjahlaupinu. 
Aðeins er mælt með þessari göngu fyrir vana göngugarpa sem þekkja vel til fjalla þar sem hún er vafasöm á köflum og krefst mikillar áreynslu.

Þú ert á þína eigin ábyrgð. 

3-5 klst
1150 m
17 km

Heimaklettur

Heimaklettur  er hæsta fjall í Vestmannaeyjum, 283 metra yfir sjávarmáli. Kletturinn er móbergsstapi sem varð til við gos undir jökli seint á síðustu ísöld.

Fjallgöngur hafa löngum verið stundaðar í Heimakletti. Oft hefur uppgangan verið erfið og hættuleg vegna brattra hlíða og bergs, en bót varð á því í kringum árið 2000. Settur var upp stigi þar sem erfiðasti hjallinn er. Gangan er þó enn erfið þá sérstaklega fyrir lofthrædda.

Óvant fólk er hvatt til að vera í fylgd með aðila sem þekkir aðstæður. Göngufólk ætti aldrei að fara að brúnum heldur fylgja gönguleiðinni á toppinn. Huga ber að veðurspá áður en lagt er af stað á fjallið. Stigar og gras eru hál í bleytu og auk þess geta vindhviður valdið óöruggum aðstæðum. Hafa ber í huga að ferðin niður er oft erfiðari en ferðin upp. Ef göngufólk finnur fyrir óþægindum er það því eindregið hvatt til að snúa við.

Gangan hefst á klifri upp lóðrétta stiga í vestur hlið fjallsins. Milli stigana á Neðri Kleifum tekur við tröppulagður stígur. Milli þrepanna í seinni stiganum er að finna svokallaðan Papakross í berginu. Hann er gerður af pöpum fyrir landnám. Skilti hefur verið sett upp í berginu til hægri við stigann þar sem krossinn er að finna. Þegar komið er upp seinni stigann blasir við fjárrétt Heimakletts. Þar á eftir tekur við sjáanlegur stígur í hlíð fjallsins undir bjargi sem kallast Hetta. Gengið er eftir stígnum að Þuríðarnefi og þar eftir uppá Hettu. Þessi hluti leiðarinnar getur reynst erfiður fyrir lofthrædda eða óvana göngumenn. Eftir að komið er á Hettu er leiðin auðveldari þar sem gengið er eftir göngustíg á grasþekju fjallsins.

Á Heimakletti er ekki ólíklegt að sjá fé á beit. Um 44 kindur eru á Heimakletti sem ganga þar allt árið. Á sumrin fjölgar búféi í um 100 þegar lömb bætast í hópinn.

Á norð-vestur brún fjallsins er Dufþekja sem ber heiti sitt eftir þrælnum Dufþaki. Sagan segir að Daufþakur hafi flúið ásamt hópi þræla til Vestmannaeyja eftir að hafa banað þrælahaldara sínum Hjörleifi. Ingólfur Arnarson fóstbróðir Hjörleifs elti þrælana og drápu menn hans þá alla, flesta á Eiðinu, en sumir klifu í björg og voru hraktir þar framan af, þ.á.m. forysturþræll Hjörleifs, Dufþakur.

Í Dufþekju og bjarginu þar fyrir neðan er mikil fýlabyggð og var þar til margra ára sigið eftir fýlsungum og hvannarrótum. Hlíðin er ákaflega flá og brött og talið er að þar hafi alls farist tuttugu og einn maður.

Gangan upp á klettinn er skemmtileg og reynir vel á. Toppur Heimakletts ber nafnið Háakolla og þaðan sést yfir bæinn og eyjarnar umhverfis Heimaey. Á björtum degi sést vel upp á meginlandið, þar sem Eyjafjallajökull og Mýrdalsjökull blasa við.

 

Þú ert á þína eigin ábyrgð.

1 klst.
283 m
1.8 km

Dalfjall og Eggjarnar

Gangan hefst í Herjólfsdal. Gengið er upp Dalfjall og eftir Eggjunum til austurs í átt að , upp á Molda. Þaðan er gengið niður í átt að Spröngunni  þar sem gönguleiðin endar. Að ganga frá Spröngunni aftur í Herjólfsdal tekur 15 mín.

Dalfjall er um 150 metra hátt fjall sem gengur frá austri til vesturs og myndar Herjólfsdal, sem fjallið dregur nafn sitt af.

Vestasti hluti fjallsins kemur saman í hnjúk að nafni Blátindur  sem er í 273 metra hæð.

Austast í fjallinu er lítið gil sem aðgreinir Dalfjall frá Molda að sunnan.

Efsti partur Dalfjalls að norðan kallast Eggjar og er samanlögð hækkun þar orðin 220 metrar, en þar fyrir neðan er Saltaberg  sunnan megin og Ufsaberg  norðan megin.

Í Herjólfsdal hefur verið haldin Þjóðhátíð  árlega frá árinu 1901, að styrjaldarárunum 1914 og '15, í gosinu 1974 og 2020 sökum covid undanskildum.

Athugið að bannað er að vera með hunda í Herjólfsdal.

Þú ert á þína eigin ábyrgð.

1 klst.
220 m
2.3 m

Tyrkjaránsganga

Gangan hefst í Ræningjatanga og þaðan liggur leiðin til allra helstu staða í Vestmannaeyjum þar sem sögufrægir atburðir áttu sér stað í Tyrkjaráninu 1627. Hægt er að sjá kort af gönguleiðinni fyrir neðan lýsinguna.

1. Ræningjatangiraeningjatangi

Ræningjatangi er tangi sem stendur austan við Brimurð á Heimaey. Tanginn dregur nafn sitt af sjóræningjunum sem komu til Vestmannaeyja í Tyrkjaráninu árið 1627, en þar er sagt að sjóræningjarnir hafi komið á land. Ekki þótti þeim ráðlegt að sigla inn í höfnina þar sem viðbúnaður var á Skansinum og mannaðar fallbyssur.

2. Litlhöfði

Litlhöfði er suður af Kervíkurfjalli. Hann myndaðist fyrir rúmum 5000 árum þegar gos varð í Stakkabótargíg.

3. Lyngfellisdalur

Í Lyngfellisdal eru ræningjarnir í Tyrkjaráninu sagðir hafa sett upp búðir og þurrkað vopn sín og klæði áður en haldið var til byggða.

4. Ofanleiti

Að  Ofanleiti  var áður bæjarland sem kallað var Kirkjubæjir en þar var starfrækt prestsetur fram til ársins 1837. Í Tyrkjaráninu var þá prestur á Kirkjubæ séra Jón Þorsteinsson en frægt er að hann faldi sig fyrir ræningjunum í Rauðahelli í Urðum, ásámt skyldfólki sínu og fleirum. Jón var höggvinn, og fólk hans herleitt til Algeirsborgar og áttu þau aldrei afturkvæmt til Íslands.

5. Hundraðmannahellir

Sagt er að hundrað manns hafi falið sig í Hundraðmannahelli þegar sjóræningjarnir frá Algeirsborg herjuðu á eyjarnar 1627 í Tyrkjaráninu. Fannst þó hópurinn vegna þess að hundur var að snuðra fyrir utan. Til að finna hellinn gátu menn notað mið, líkt og gert er með fiskimið. Miðið er: Hanahöfuð í Halldórsskoru og Hásteinn í Dönskutó.

6. Fiskhellarfiskhellar

Í Tyrkjaráninu 1627 leitaði fólk skjóls fyrir ræningjunum í hellum og skútum í Fiskhellum. Fóru menn með konur sínar og börn þangað upp, líklega á Þorlaugargerðishillu þar sem Þorlaugargerðisbændur höfðu fiskbyrgi sín en sú hilla er mjög ofarlega í berginu. Er það í munnmælum að pils sumra kvennanna á hillunni hafi hangið fram af og hafi 18 kúlnagöt verið á pilsi einnar konunnar en hana hafi ekki sakað. 

7. Sængurkonusteinn

Sagan segir að tveir sjóræningjar í Tyrkjaráninu 1627 hafi komið að konu sem nýbúin var að ala barn við Sængurkonustein. Annar ræninginn vildi drepa barnið og hafa konuna á brott en hinn bannaði það og gaf konunni hluta af skikkju sinni til að vefja utan um barnið og gaf hann þeim líf.

8. Prestasteinn

Sagt er að prestar Eyjamanna á tíma Tyrkjaránsins, þeir séra Jón Þorsteinsson á Kirkjubæ og séra Ólafur Egilsson á Ofanleiti hafi viðhaldið þeim hinum gamla sið að messu lokinni að ganga saman að Prestasteini og kveðjast þar. Þeir fornvinir og kollegar, séra Jón píslarvottur og séra Ólafur, hafa því að öllum líkindum kvaðst þar í hinsta sinn sunnudaginn 15. júlí 1627.

9. Minnismerki Jóns ÞorsteinssonarIMG_0773-2-

Jón Þorsteinsson var sóknarprestur að Kirkjubæ frá 1607 til dauða síns 1627. Andlát Jóns var líklega sá atburður sem veitti honum hve mesta frægð. Hann dó þann 18. júlí 1627, þegar hann var hálshöggvinn af sjóræningja frá Alsír, í Tyrkjaráninu. Hann hefur upp frá því verið kallaður Jón Píslarvottur, en legsteinn Jóns var endurreistur á hrauninu eftir gos.

10. Stakkagerðistún

Á Stakkagerðistúni má sjá höggmynd í minningu Guðríðar Símonardóttur frá Stakkagerði sem rænt var í Tyrkjaráninu 1627 og seld í ánauð í Alsír. Hún var ein fárra Íslendinga er keypt var laus af Danakonungi 1636. Á leið hennar aftur til Íslands dvaldi hún veturinn 1636-1637 í Kaupmannahöfn þar sem hún ásamt öðrum Íslendingum fengu uppfræðslu í kristnum fræðum og upprifjun í móðurmálinu. Þá kennslu annaðist Hallgrímur Pétursson. Kom það svo til að þau þau felldu hugi saman og fylgdi Hallgrímur henni til Íslands. Hallgrímur Pétursson varð síðar eitt mesta sálmaskáld íslendinga.

11. Skansinn

Eftir Tyrkjaránið óttuðust Eyjamenn aðra innrás og því var danskur herþjálfari fenginn til að hafa umsjón með landvörnum frá Skansinum . Fallbyssur, sem en má sjá á Skansinum, voru notaðar í æfingar Herfylkingar Vestmannaeyja og skipulagði hann einnig eftirlit frá Helgafelli í þeim tilgangi að fylgjast með ferðum skipa.

Þú ert á þína eigin ábyrgð.

3-4 klst.
480 m
12 km

Heimaey - hringur

Þessi gönguleið er sú sama og hlaupaleiðin er í svokölluðu „Puffin-run“. Vestmannaeyjar eru stærsta lundabyggð í heimi og er tenging við lundann mikil á þessari leið þar sem hluti leiðarinnar er meðfram lundabyggð.

Gönguleiðin byrjar frá Skansinum til vesturs í gegnum bæinn og liggur leiðin meðfram hafnarsvæðinu og niður fyrir Friðarhafnarskýli. Þá er gengið upp að Skiphellum, framhjá Spröngunni, til suðurs Hlíðarbrekku og inn á Hlíðarveg.

Gengið er inn í Herjólfsdal og hringinn í kringum Tjörnina. Þaðan er gengið að Mormónapolli og til suðurs með Hamrinum, haldið áfram á Breiðabakka þar sem gengið er niður í Klauf. Gengið er úr Klaufinni upp á veginn til Stórhöfða og beygt til vesturs að göngustígnum sem liggur að Lundaskoðunarhúsinu. Gengið er meðfram og í lundabyggðinni vestur og suður við Stórhöfða. Frá Kaplapitti er gengið upp að húsinu og inn á veginn. Næst liggur leiðin niður Stórhöfða yfir eiðið milli Klaufar og Brimurðar.

 

Beygt inn Kinn og gengið meðfram Sæfelli alveg út veginn og síðan beygt til austurs og farið meðfram flugbraut og út fyrir flugbrautarenda að austan. Þaðan niður með brúninni og með henni þar til að komið er inn á slóða. Gengið á slóðanum að Eldfelli og farið framhjá Páskahelli.

 

Gengið meðfram Eldfelli að austan nánast að krossinum inn við Eldfellsgýg. Síðan er gengið á Nýja Hrauninu niður á útsýnispall hjá Viðlagafjöru, þar sem útsýni er að Bjarnarey, Elliðaey og Eyjafjallajökli. Frá honum er farið áfram til norðurs og farið grýtta leið meðfram Gjábakkafjöru sem endar upp á útsýnispalli móts við Klettshelli. Gengið er þaðan niður í Skansfjöru framhjá Stafkirkjunni og Landlyst og þar með er hringnum lokað.

Þessi gönguleið er krefjandi og mælt er með að taka kort af leiðinni meðferðis.

 

Þú ert á þína eigin ábyrgð.

4-6 klst.
500 m
20 km

Ræningjatangi - Lyngfellisdalur - Sæfell

Gangan hefst á bílastæði við Brimurð og liggur leiðin í Ræningjatanga og þaðan eftir göngustíg meðfram austurbrún Heimaeyjar. Gengið er eftir Brimurðarlofti þar til komið er að gili í hlíðinni og þar er gengið upp. Þegar upp hlíðina er komið er farið yfir út á Litlhöfða. Þaðan liggur leiðin meðfram austurhlið Lyngfellisdals og upp á Sæfell. Leiðin niður liggur eftir göngustíg niður Sæfell, meðfram hlíð vestan við Lyngfellisdal og til baka í átt að Brimurð.

Ræningjatangi er tangi sem stendur í suður átt austan við Brimurð og dregur tanginn nafnið sitt af sjóræningjum sem gengu á land þar í Tyrkjaráninu 1627. Ekki þótti þeim ráðlegt að leggjast að við höfnina þar sem mannaðar fallbyssur stóðu á Skansinum.

Ræningjarnir settu upp búðir sínar í Lyngfellisdal og dvöldu þar í þrjá daga. Ræningjaflöt í Lyngfellisdal hefur síðan verið notuð fyrir knattspyrnu- og handknattleiks æfingar áður en nýrri æfingasvæði komu til sögu. 

Á toppi Sæfells er útsýni yfir alla eyjuna og einnig í berg og kletta sem aðskilja land og haf.

Þú ert á þína eigin ábyrgð.

2 klst.
300 m
5.5 km
Eldfell gönguleið

Eldfell

Gangan hefur þrjá upphafspunkta. Leiðirnar eru mislangar, tími og vegalengt hér að ofan miðast við leiðina frá upplýsingaskiltinu á bílastæðinu.

  • Frá upplýsingaskilti á bílastæði staðsett við Fellaveg (Blá lína)
  • Frá upplýsingaskilti til norðvesturs við Eldfell (Gul lína)
  • Frá Eldheimun. Gengið er eftir merktum stíg í átt að Eldfelli, haldið áfram eftir vegi í norðvestur þar sem þú kemur að upplýsingaskilti staðsett norðvestan við Eldfell (Gul punkta lína)

Frá öllum upphafspunktum er hægt að komast bæði uppá topp Eldfells og út í Páskahelli.
Gangan er tilvalin fyrir fjölskyldufólk eða þá sem hafa ekki mikla reynslu af fjallgöngum. Þó er mikilvægt að fara varlega á fjallsbrúnum og í bröttum brekkum.

Eldfell er eldfjall sem myndaðist í Heimaeyjargosinu árið 1973. Það er um 131 metra hátt og stendur austan við Helgafell.

Stutt frá Eldfelli er safnið Eldheimar sem segir sögu eldgossins.

Þú ert á þína eigin ábyrgð.

45 mín
120 m
1.7 km

Ofanleitishamar / Hamarinn

Ofanleitishamar eða Hamarinn eins og hann er oftast kallaður liggur meðfram vesturströnd Heimaeyjar, frá Kaplagjótu í norðri niður að Klauf í suðri, meðfram Torfmýri, Ofanleiti og Breiðabakka þar sem Þjóðhátíð var haldin 1973 og 1974. Hamarinn er um 60 metra hár þverhníptur og hann er víðast hvar talinn ókleifur.

Gönguleiðin er stikaður göngustígur í hrauni og grasbölum og er göngufólk hvatt til að halda sig á merktum stíg, ekki fara of nálægt hamarsbrúninni.

Hamarinn er skemmtileg gönguleið meðfram allri vesturstönd Heimaeyjar með fallegu útsýni til Álseyjar, Suðureyjar, Brands, Helliseyjar og Surtseyjar.

Gönguleiðin er svolítið löng en lítil hækkun er á leiðinni. Athugið að þessi leið er ekki hringur og þarf að ganga 3.5 km til baka til að skila sér á byrjunarreit.

Þú ert á þína eigin ábyrgð.

1.5 klst.
15 m
3.5 km

Helgafell

Gangan hefst við upplýsingaskilti neðan við Helgafellsvöll. Gengið er í átt að Hrafnaklettum og áfram eftir grasstíg upp frá klettunum til suðurs að rótum fjallsins. Þar er brattur og grófur göngustígur upp á fjallið.

Helgafell er 227 metra hátt eldfjall suðaustan á Heimaey. Nafngift Helgafells er sögð vera að írskur þræll að nafni Helgi, sem flúði eftir vígið á Hjörleifi hafi verið drepinn þar af Ingólfi Arnarsyni og hans mönnum. Það er algengur misskilningur að eitthvað sé heilagt við Helgafell.

Vörðurnar á brún fellsins eru leifar frá vaktstöðu heimamanna sem settar voru upp eftir Tyrkjaránið 1627.

Gangan er tilvalin fyrir fjölskyldufólk eða þá sem hafa ekki mikla reynslu af fjallgöngum.

Þú ert á þína eigin ábyrgð.

30 mín.
140 m
1 km

Sæfell/Sæfjall

Gangan hefst á bílastæðinu við Sæfell. Þaðan er hægt að ganga bæði beint upp á Sæfell af bílastæðinu eða hafa viðkomu í Lyngfellisdal og ganga þaðan upp á Sæfell.

IMG_0738-2-

Nafn fjallsins er nær alltaf ritað Sæfell en nafnið Sæfjall er til í eldri heimildum og því líklega hið upprunalega. Mikinn lunda er að finna í Sæfelli og í hlíðunum í kring og hefur lundaveiði lengi tíðkast í þar.

Sæfell stendur suður af Helgafelli og norður af Kervíkurfjalli og myndar ásamt því vesturbrún Stakkabótar. Norðan við Sæfell stendur flugvöllurinn.

Sunnan við Sæfell er Ræningjatangi þar sem sjóræningjarnir í Tyrkjaráninu komu á land. Af Sæfelli má sjá Lyngfellisdal, þar sem þeir settu upp búðir.

Gangan er tilvalin fyrir fjölskyldufólk eða þá sem hafa ekki mikla reynslu af fjallgöngum. Þó ber að hafa varann á því steinar og brattar brekkur geta verið sleipar í votviðri.

Þú ert á þína eigin ábyrgð.

30 mín.
125 m
1.4 km

Stórhöfði

Gangan hefst í Klauf og gengið er upp Höfðann vestanverðan í átt að fuglaskoðunarhúsinu. Áfram er haldið meðfram bjarginu að Kaplapyttum og suður Stórhöfða í átt að Lambhillu. Þaðan er haldið austur í átt að Höfðahelli sem er manngengur þó hrunið hafi töluvert ofan í hann á seinni árum.
Síðan er gengið aftur að Klauf.

Stórhöfði er syðsti punktur Heimaeyjar. Þar er fuglalíf mikið, og rétt hjá er fuglaskoðunarhús. Útsýni yfir Heimaey í norður er einstaklega fallegt og á suð-vestur hlið Stórhöfða er einnig stórkostlegt útsýni yfir nálægar eyjar. 

Á höfðanum er syðsti og jafnframt einn elsti viti landsins, Stórhöfðaviti, en hann hefur verið í notkun síðan 1906. 

Á Stórhöfða er veðurathugunarstöð sem sögð er vera vindasamasta veðurstöð í Evrópu. Þar hafa marg oft verið slegin met hvað varðar veður en til að mynda hefur þar verið mældur lægsti loftþrýstingur á landi í Evrópu. 

Í seinni heimstyrjöldinni voru braggar á Stórhöfða þar sem hermenn frá ýmsum þjóðum höfðu aðsetur þar sem hentugt var að fylgjast með sjó- og flugferðum á syðsta punkti Íslands. 

Gangan er tilvalin fyrir fjölskyldufólk og þá sem hafa ekki mikla reynslu af fjallgöngum.

Þú ert á þína eigin ábyrgð.

30 mín.
155 m
3 km

Nýja Hraun

Gönguleiðin hefst við stigann við gatnamót Kirkjuvegar og Miðstrætis. Þaðan liggur leiðin eftir merktum göngustíg í hrauninu sem liggur niður á Skans. Af Skansinum er gengið eftir öðrum stíg í hrauninu í átt að Eldheimum þar sem leiðin endar, en hægt er að fylgja vegvísum þangað. Hægt er að fara margar leiðir um nýja hraunið en mikilvægt er að halda sig innan stíga til að forðast átroðning.

Nýja hraunið varð til í eldgosinu á Heimaey 1973 þegar 417 af 1350 húsum bæjarins fóru undir hraun og önnur 400 skemmdust að einhverju eða miklu leyti. Á leiðinni um hraunið eru minnisvarðar um hús sem fóru undir hraun, sem og upplýsingaskilti til fræðslu um eldgosið á meðan göngu stendur. Einnig eru þar bekkir þar sem hægt er að setjast og virða fyrir sér útsýnið yfir bæinn og hraunið.

Ef göngufólk vill fara lengri vegalengd er tilvalið að fara gönguleiðina um nýja hraunið og þaðan upp á Eldfell.

Þú ert á þína eigin ábyrgð.

45 mín
200 m
1.7 km

Skansinn

Gangan á Skansinn hefst í miðbænum við verslunina Eymundsson og liggur þaðan til austurs eftir Strandvegi. Þegar komið er upp á hæðina má finna tröppur sem liggja niður að Skansinum. Leiðin til baka liggur upp Skansveginn og þaðan yfir nýja hraunið í átt að miðbænum. Aðeins 20 metra hækkun er hvora leið, gangan sjálf er ekki erfið og því tilvalin fyrir fjölskyldufólk eða þá sem hafa ekki mikla reynslu af fjallgöngum. 

Skansinn heitir réttu nafni Kornhólsskans en hann stendur nálægt Kornhóli.

Virkið / varnargarðurinn á Skansinum var reistur 1586 að ósk Danakonungs til þess að verja konungsverslunina ágangi Englendinga. Eftir Tyrkjaránið 1627 var varnargarðurinn á Skansinum endurbyggður enda töldu menn hann nauðsynlegann til að verjast frekari innrásum.

Á Skansinum er hægt að sjá fallbyssu frá 1586 sem meðal annars var notuð á æfingum herfylkingar Vestmannaeyja sem stofnuð var eftir Tyrkjaránið.

Á Skansinum má einnig finna Stafkirkjuna, eftirmynd fyrstu kirkjunnar í Vestmannaeyjum sem byggð var við kristnitöku íslendinga árið 1000. Leifar þeirrar kirkju hafa þó aldrei fundist en þær urðu eflaust hafinu að bráð. Kirkjan er nú stendur var reist í tilefni 1000 ára kristnitökuafmæli Íslendinga árið 2000 og var hún gjöf frá Norðmönnum.

Landlyst þar sem fyrsta fæðingarheimili á Íslandi var til húsa var einnig endurbyggt á Skansinum. Upphaflega stóð Landlyst í miðbænum en því var valinn staður á Skansinum árið 2000. Húsið hýsir nú læknaminjasafn.

Á þessum stað er vatns- og rafmagnssögu Vestmannaeyja einnig gerð góð skil sem og sögu sjóveitunnar. Sjóveitutankurinn frá árinu 1931 stendur til dæmis hálfur út úr hrauninu eftir gosið 1973.

Til móts við Skansinn er dalur sem kallast Hraunskógur. Í daglegu tali er hann oft nefndur Dauðadalur því þar safnaðist eitrað gas í Heimaeyjagosinu sem banvænt var að anda að sér. Óhætt er að fara í dalinn núna og er hann tilvalinn fyrir lautarferð.

Þú ert á þína eigin ábyrgð.

20 mín
40 m
1.4 km