28. október 2024

Öll hreyfiúrræði fyrir 60 ára og eldri á einum stað

Vestmannaeyjabær tekur þátt í samstarfsverkefni sem er hluti af aðgerðaráætlun verkefnisins Gott að eldast.

Þetta er samstarfsverkefni verkefnastjóra frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, Landssambandi eldri borgara, íþrótta- og ólympíusambandi Íslands, embætti landlæknis og Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu.

Ætlunin er að birta upplýsingar um framboð hreyfiúrræða á landsvísu fyrir 60 ára og eldri á einum stað á vefsíðunni www.island.is. Markmiðið er að brúa bilið á milli þeirra sem leita eftir þjónustu og þeirra sem standa fyrir hreyfiúrræðum.

Ávinningurinn af því að birta skilvirkar upplýsingar um hreyfiframboð á einum stað getur orðið margþættur. Fólk 60 ára og eldri getur fundið hreyfingu við sitt hæfi í sínu nærumhverfi, þjónustuaðilar geta komið sínum úrræðum á framfæri og fagaðilar geta vísað fólki í viðeigandi þjálfun.

Vestmannaeyjabær ætlar að halda utan um öll hreyfiúrræði fyrir 60 ára og eldri á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar undir flokknum eldri borgarar, heilsuefling:  https://www.vestmannaeyjar.is/thjonusta/eldri-borgarar/heilsuefling/

Til þess að skrá hreyfiúrræði eða fyrir frekari upplýsingar er hægt að hafa samband við Thelmu, verkefnastjóra öldrunarþjónustu á netfangið: thelma@vestmannaeyjar.is


Jafnlaunavottun Learncove