Fara í efni

Birgir Nielsen bæjarlistarmaður 2024

Tillkynnt var um bæjarlistarmanna Vestmannaeyja 25. apríl 2024 í Eldheimum. Það var Njáll Ragnarsson sem tilkynnti valið líkt og undanfarin ár. Hann þakkaði öllum þeim sem að sóttu um eða sendu ábendingu fyrir áhugann. 
Endanleg ákvörðun var tekin eftir góðar umræður í bæjarráði og eftir þær var ráðið, sem fyrr sammála um útnefninguna.

Ræða Njáls hljóðaði svona:

Birgi Nielsen þarf vart að kynna en hann hefur frá unga aldri verið viðloðandi tónlist og ákvað snemma á lífsleiðinni að helga lífi sínu þeim starfsvettvangi. Birgir er fæddur árið 1974 og varð því fimmtugur í febrúar síðastliðnum. Hann mætti átta ára gamall í fyrsta trommutímann hjá Guðmundi Steingrímssyni eða Papa Jazz sem var goðsögn í lifanda lífi en stundaði síðar nám hjá Gunnlaugi Briem. Birgir nam við tónlistarskóla FÍH á árunum 1993-1995 og hefur frá árinu 1998 starfað sem slagverkskennari og frá 2018 verið aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Vestmannaeyja.

Frá því að Birgir flutti hingað til Eyja í upphafi árs 2010 hefur hann heldur betur látið til sín taka í tónlistarlífi okkar Eyjamanna. Hann hefur tekið þátt í hinum frægu Eyjatónleikunum í Hörpu frá 2012 – 2023 og lék auk þess með Blítt og létt hópnum á fjölda tónleika á árunum 2009-2019. Nú um helgina fer fram tónlistarhátíðin Hljómey og er Birgir einn af stofnendum þeirrar hátíðar og er auk þess verkefnastjóri hennar. Áherslan þar á bæ er lögð á að fá hæfileikaríkt fólk víða að af landinu og sérstaklega að koma ungu eyjafólki á framfæri. 

Auk þessa hefur Birgir sinnt mörgum trúnaðarstörfum í tónlistinni og starfað með t.d. Goslokanefnd, hefur setið í stjórn Leikfélags Vestmannaeyja og gegndi þar formennsku um tíma auk þess sem hann gengdi hlutverki hljómsveitarstjóra 2010-2013. Hjá Leikfélaginu tók hann þátt í uppfærslu á m.a. Konungi ljónanna, Mamma Mía, Banastuði, Grease og Rocky Horror sem vakti verðskuldaða athygli og var valin athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins árið 2023 og var sýnt á fjölum Þjóðleikhússins. 

Að lokum má nefna að Birgir hefur komið að gerð fjögurra þjóðhátíðarlaga með hljómsveit sinni Landi og sonum, en það voru Í Dalnum, Vinátta, Brim og boðaföll og síðast en ekki síst það þjóðhátíðarlag sem allir landsmenn þekkja og raula með í hvert skipti sem það heyrist – Lífið er yndislegt. 

Árið 2024 verður viðburðaríkt ár hjá Birgi en þá mun þriðja sólóplata hans koma út sem ber nafnið “Eldur” þar sem hljóð úr náttúru Eyjanna skipa stóran sess. Fyrsta verk plötunnar, Whales Of Iceland/Hvalalagið, er þegar komið í dreifingu og hefur vakið verðskuldaða athygli. Þar eru í forgrunni hljóð hnúfubaka við Eyjarnar auk mjaldrasystranna Litlu gráar og Litlu hvítar. 

Birgir er ófeiminn við að feta nýjar leiðir í sinni listsköpun með notkun hljóða úr náttúru Eyjanna. Í umsókn sinni vonast Birgir til að geta skapað einstök tónverk sem munu leiða hróður Vestmannaeyja um langan veg og vekja athygli á okkar einstöku náttúru og umhverfi. Framundan hjá Birgi eru áhugaverð  verkefni á vettvangi tónlistar og hefur hann það að markmiði að vinna að einstakri tónlist sem mun hafa djúp áhrif á listasögu og menningu Vestmannaeyja. 

Góðir gestir, 

Fyrir hönd bæjarráðs óska ég Birgi innilega til hamingju með útnefninguna og hlakka til að fylgjast með listsköpun hans á árinu og í komandi framtíð.