Kitty Kovács bæjarlistamaður 2023
Í dag 1.maí 2023, var tilkynnt um val bæjarlistamanns Vestmannaeyja 2023 í Eldheimum. Það var Njáll Ragnarsson sem tilkynnti valið en alls bárust 12 umsóknir og ábendingar. Hann þakkaði öllum þeim sem að sóttu um eða sendu ábendingu fyrir áhugann. Endanleg ákvörðun var tekin eftir góðar umræður í bæjarráði og eftir þær var ráðið, sem fyrr, sammála um útnefninguna.

Njáll vildi f.h. Vestmannaeyjabæjar nota tækifærið og þakka Lista- og menningarfélagi Vestmannaeyja kærlega fyrir þeirra framlag til einmitt lista og menningar í Vestmannaeyjum.
Bæjarlistamaður Vestmannaeyja árið 2023 er Kitty Kovács.
Kitty Kovács er fædd í Győr í Ungverjalandi árið 1980. Hún útskrifaðist árið 2003 frá tónlistardeild Széchenyi István háskólans þar í borg með diplómu í píanó- og kammertónlist. Eftir útskriftina starfaði hún sem undirleikari í Győr og lagði síðan stund á undirleikaranám við Ferenc Liszt Akademíuna í Budapest.
Á námsárum sínum sigraði hún í píanókeppnum, m.a. árið 1997 í Salt Lake City og árið 2000 varð hún í 3. sæti í Chopin keppninni. Kitty kom til Íslands árið
2006 og hefur starfað sem píanókennari og organisti. Frá árinu 2011 hefur hún verið kirkjuorganisti og kórstjóri við Landakirkju í Vestmannaeyjum. Kórinn, undir hennar stjórn hélt tónleika í heimaborg hennar, Györ, árið 2017.
Kitty er kennari við Tónlistarskóla Vestmannaeyja. Þá hefur hún stjórnað Kvennakór Vestmannaeyja og Karlakórnum en einnig barnakór og hefur að auki
leikið, bæði á píanó og orgel við ýmsa menningarviðburði í Vestmannaeyjum. Kitty hefur stundað orgelnám við Tónskóla þjóðkirkjunnar og vorið 2017 lauk
hún kantorsnámi þaðan. Vorið 2018 lauk hún þaðan einnig námi í einleiksáfanga. Kennari hennar var Lenka Mátéová. Kitty hefur á undanförnum
árum tekið þátt í alþjóðlegum sumartónleikum í Hallgrímskirkju og vakið þar verðskuldaða athygli sem listamaður.
Árið 2022 vann Kitty að því að taka saman og setja út ýmis lög Alfreðs Washington Þórðarsonar sem komu síðan út í bókarformi í október það ár.
Fagmennska Kittýar og nákvæmni er eftirtektarverð. Allt frá því að hún kom fyrst til Eyja hefur hún látið til sín taka í menningarlífi okkar Eyjamanna. Hún er því einstaklega vel að þessari útnefningu komin. Fyrir hönd bæjarráðs óskaði Njáll henni innilega til hamingju með útnefninguna.
Innilegar hamingjuóskir, Kitty.