4. apríl 2024

Vestmannaeyjabær er í 1. sæti í þjónustu við barnafjölskyldur

Samkvæmt árlegri þjónustukönnun Gallup ríkir almenn ánægja meðal íbúa í Vestmannaeyjum með þjónustu bæjarins.

Fram kemur að 12 þjónustuþættir af 13 eru yfir meðaltali í samanburði við 19 stærstu sveitarfélög á landinu. Almennt er ánægja með þjónustu sveitarfélaga að minnka samkvæmt könnuninni.

Vestmannaeyjabær er í 1. sæti í þjónustu við barnafjölskyldur fjórða árið í röð. Sveitarfélagið hækkar sig í þremur þáttum á milli ára, m.a. þegar spurt er um þjónustu leikskóla og þjónustu við eldri borgara. Vestmanneyjabær er í 2. sæti þegar spurt er um þjónustu sveitarfélagsins þegar á heildina er litið.

Þetta er mjög jákvætt og gott veganesti í þeirri vinnu að bæta enn frekar þjónustu við bæjarbúa.

Af könnuninni má ráða að samgöngur hafa mikil áhrif á hug íbúa til Vestmannaeyja sem staðar til að búa á, þrátt fyrir að ánægja með þjónustu sveitarfélagsins sé sú sama og fyrir ári. Það kemur ekki á óvart eftir þennan vetur.

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, kynnti þessar niðurstöður á almennum íbúafundi sem haldinn var í gær. Jafnframt var á þeim fundi farið yfir hringrásarlögin og breytingarnar sem innleiðing þeirra hefur í för með sér. Fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Brynjar Ólafsson, framkvæmdastjóri umhverfis-og framkvæmdasviðs voru með erindi. Upplýsandi umræður voru að erindum loknum.

Hægt er að sjá niðurstöður þjónustukönnunar Gallup (hér)

Ábendingar um niðurstöður þjónustukönnunarinnar og það sem má betur fara er hægt að senda á netfangið thjonustukonnun@vestmannaeyjar.is