13. október 2021

Varðandi biðlista leikskóla

Af gefnu tilefni vill Vestmannaeyjabær árétta að það eru ekki 25 börn á biðlista eftir leikskóla.

Fræðsluráð fjallaði um stöðuna á leikskólaumsóknum á fræðsluráðsfundi þann 12. október sl. til þess að meta stöðuna til vors í þeim tilgangi að leita allra leiða til að tryggja börnum leikskólavist sem fyrst eftir 12 mánaða aldur. Í fundargerðum fræðsluráðs hafa öll skráð börn verið sögð á biðlista hvort sem þau hafa náð aldri til að hefja leikskólagöngu eða ekki, sem getur verið villandi. Eðlilegast er að telja þau börn á biðlista sem hafa náð aldri til að hefja leikskólagöngu en stendur ekki til boða leikskólapláss þar sem leikskólarnir eru fullsetnir.

Eins og staðan er í dag eru 10 börn, fædd 2020, á skrá eftir leikskólaplássi og þar af eru þrjú sem hafa náð 12 mánaða aldri. Þeim stendur til boða leikskólapláss en foreldrar/forráðamenn taka ákvörðun um hvort þeir þiggja pláss sem er í boði eða kjósa að bíða. Þá eru 15 börn, fædd 2021, á skrá.