19. júlí 2021

Uppbygging og framtíðarsýn á 3. hæð Fiskiðjunnar

Föstudaginn 9. júlí sl., undirrituðu þau Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, Hörður Baldvinsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja og Arnar Sigurmundsson, stjórnarformaður setursins, viljayfirlýsingu um uppbyggingu og framtíðarsýn á þekkingar-, nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi á 3. hæð Fiskiðjunnar. 

Undirritunin fór fram á 3. hæð Fiskiðjunnar. Í yfirlýsingunni er m.a. kveðið á um áform aðila um uppbyggingu þekkingarstarfsemi á 1.040 fm. svæði. Búið að ráðstafa hluta af hæðinni undir starfsemi stafrænnar smiðju og fjölnota rými fyrir nýsköpun og sprotastarfsemi, en áform eru um uppbyggingu á öðru óráðstöfuðu svæði á hæðinni. Gert er ráð fyrir að aðilar geri með sér samkomulag þar sem ítarlegar er kveðið á um fjármögnun, tímasetningar og kostnað.

Heilmikil undirbúningsvinna um uppbyggingu og þróun nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi hefur átt sér stað undanfarin tvö ár. Það er því ánægjulegt að Vestmannaeyjabær og Þekkingarsetur Vestmannaeyja taki nú höndum saman um að hefja uppbyggingu á aðstöðu fyrir þekkingarstarfsemi á hæðinni í samstarfi við atvinnulífið. Með uppbyggingu þekkingarstarfsemi á 3. hæðinni og nálægð við Þekkingarsetur Vestmannaeyja skapast heilmörg tækifæri á þróun nýrra verkefna, samvinnu og fjölgun áhugaverðra starfa. Eru fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar í Vestmannaeyjum hvattir til að taka þátt í þróun þessa verkefnis með Þekkingarsetrinu og Vestmannaeyjabæ. 

thekkingasetur             thekking