22. maí 2020

Tölvuinnleiðing GRV, Út fyrir bókina og Harry Potter þemaverkefni hljóta hvatningarverðlaun fræðsluráðs

Á 330. fundi fræðsluráðs þann 20. maí sl. valdi fræðsluráð þrjú verkefni sem hljóta hvatningarverðlaun fræðsluráðs þetta árið. 

Markmið með hvatningarverðlaunum er að vekja athygli á því sem vel er gert í fræðslustarfi. Verðlaunin eru hugsuð sem hrós til þeirra sem sýnt hafa framúrskarandi vinnu og er einnig staðfesting á því að viðkomandi er fyrirmynd á því sviði sem viðurkenningin nær til.


Verkefnin sem hljóta verðlaun í ár eru:

Harry Potter þemaverkefni 4. bekkjar:
Snjólaug Árnadóttir, Unnur Líf Ingadóttir og Anna Lilja Sigurðardóttir hafa unnið mikið og metnaðarfullt þemaverkefni fyrir bekkina sína. Verkefnið teygði anga sína í aðra árganga í GRV og einnig út fyrir skólann. Mikil ánægja var með verkefnið hjá nemendum og foreldrum.

Út fyrir bókina:
Snjólaug Árnadóttir og Unnur Líf Ingadóttir hafa lagt mikla vinnu í að gera námið áhugavert án bókar. Markvisst er unnið af því að gera kennsluna skemmtilega og lifandi, m.a. með námsefni sem tengist áhugasviði barna, gegnum leiki og spil. Jafnframt halda þær út fésbókarsíðu þar sem þær deila verkefnum. Verkefnið hefur hlotið mikla athygli innan og utan skólans.

Tölvuinnleiðing GRV:
Guðbjörg Guðmannsdóttir hefur verið í forsvari fyrir innleiðingu og bættum tæknimálum í GRV. Forritun á öllum stigum í náminu, örnámskeið fyrir kennara og starfsfólk. Án efa hefur þessi innleiðing og vinna nýst skólanum vel í fjarkennslu síðustu misseri.

Innilegar hamingjuóskir kæru verðlaunahafar!