5. desember 2024

Terra tekin við sem rekstraraðili í úrgangsmálum

1. desember tók Terra formlega við rekstri móttökustöðvarinnar. 

Þann 1. desember, tók Terra formlega við þjónustusamningi við Vestmannaeyjabæ, sem áður var í höndum Kubbs. Samningurinn nær til þjónustu við heimili og stofnanir bæjarins, auk reksturs móttökustöðvar og þjónustu við grenndarstöðvar. Þetta nýja verkefni markar tímamót og felur í sér fjölmörg tækifæri til að lyfta úrgangsmálum Vestmannaeyja á hærra plan. Fyrirtækið hefur miklar væntingar til verkefnisins og leggur áherslu á að bæta þjónustu og auka sjálfbærni í starfseminni. 

Til að stýra verkefninu hefur Daníel Edward Jónsson verið ráðinn sem rekstrarstjóri. Hann hefur nú þegar hafið störf og mun leiða sex manna teymi sem fluttist yfir frá Kubbi. Með honum í teyminu eru Jónstein, Siggi, Eddy, Slaw, Tryggvi, Michal og Roland. 

Terra skilgreinir sig sem fyrirtæki í umhverfisþjónustu, býður upp á lausnir til söfnunar og flokkunar á úrgangi og endurvinnsluefnum, og sér um að koma þessum efnum í réttan farveg. Terra starfar um land allt.

Terra vinnur að því með viðskiptavinum félagsins að flokka sem mest og hvetur jafnframt til minni notkunar á umbúðum og efnum sem þarfnast sérstakrar meðhöndlunar. Markmið Terra er að skilja ekkert eftir og leggur ríka áherslu á að auðvelda Íslendingum að skilja ekkert eftir; endurnýta, flokka og meðhöndla endurvinnsluefni og annan úrgang með ábyrgum hætti. Að skilja ekkert eftir er þýðing á Zero Waste sem er alþjóðlegt átak um að bæta umgengni við jörðina með því að draga úr mengun og minnka sóun. Terra hefur einsett sér að aðstoða fyrirtæki og heimili í þessum efnum, hvetja til minni notkunar á umbúðum og einfalda flokkun.

Fyrirtækið hefur starfað við flokkun og söfnun endurvinnslu efna frá árinu 1984 og vinnur með fyrirtækjum, sveitarfélögum og einstaklingum í endurvinnslu og umhverfisvænni úrgangsstjórnun með áherslu á að koma öllum þeim efnum sem falla til í viðeigandi farveg og aftur inn í hringrásarhagkerfið.

Til gamans má geta að Terra hefur hlotið viðurkenningu sem eitt af 2% íslenskra fyrirtækja sem teljast til Framúrskarandi fyrirtækja árið 2024. Nánar er hægt að lesa um það hér. 


Opnunartími móttökustöðvar Terra við Eldfell er:

Virka daga: 10:00 - 18:00

Helgar: 11:00 - 16:00

Heimasíða: https://www.terra.is/is/um-terra/mottokustodvar/vestmannaeyjar

Rekstarstjóri Terra í Vestamannaeyjum er Daníel Edward Jónsson, danielj@terra.is

Hér er hægt að skoða sorphirðudagatalið

Terra-starfsmenn


Jafnlaunavottun Learncove