Stórskipakantur í Vestmannaeyjahöfn
Á síðasta fundi framkvæmda- og hafnarráðs var tekin fyrir skýrsla sem Vegagerðin hefur unnið fyrir ráðið um hvar mögulegt er að byggja upp stórskipakant í Vestmannaeyjahöfn með tilliti til frátafa og kostnaðar.
Mat á frátöfum og kostnaði við stórskipakant í Vestmannaeyjahöfn
Vestmannaeyjahöfn er mikilvæg flutninga- og fiskihöfn sem þjónustar útgerðina, farmflutninga, skemmtiferðaskip og nýjast rósin í hnappagati okkar er landeldið. Núverandi innsigling og viðlegukantar takmarka stærð skipa sem geta notað höfnina. Í skýrslunni er metinn fýsileiki nýs stórskipakants á þremur stöðum í innsiglingunni, borinn saman við fyrri rannsóknir á stórskipahöfn norðan við Eiðis. Kostnaðartölur varðandi stórskipakant norðan Eiðis hafa verið uppreiknaðar með tilliti til að á Heimaey finnist nýtanlegt grjót.
Frátafir vegna ölduhæðar Ölduhæð hefur afgerandi áhrif á hreyfingar skipa við bryggjukanta og þar með á lestun og losun farms. Þær þrjár staðsetningar sem metnar voru, Gjábakkafjara, Ytri Skans og Innri Skans, sýndu mismunandi frátafir:
-
Gjábakkafjara: Að meðaltali 73 dagar á ári með ölduhæð yfir 0,5 m, sem veldur seinkunum við lestun og losun.
-
Ytri Skans: Hefur frátafir í 36 daga ár ári með ölduhæð yfir 0,5 m, sem minnkar í 15 daga með 235 m brimvarnargarði.
-
Innri Skans: Aðeins 1 dagur á ári með ölduhæð yfir 0,5 m, sem gerir hann að besta valkostinum innan innsiglingarinnar.
Vatnslíkan var sett upp á sínum tíma fyrir tillögur utan við Eiðið sem tryggir meiri áreiðanleika í niðurstöðum. Áætlaðar frátafir í Gjábakkafjöru og við Skans eru háðar meiri óvissu en niðurstöðurnar við Eiðið. Staðsetning 1 við Eiðið með 500 m brimvarnargarði sýndi frátafir upp á aðeins 2–4 dagar á ári, sem gerir þann kost á fýsilegum kosti fyrir stórskipakant með nálgæð við athafnarlífið.
Löndunarmörk miðast við 0,5 metra.
-
Eiðið tillaga 1: Að meðaltali 3 dagar á ári sem gerir þessa leið að besta valkostinum utan við Eiðið.
-
Eiðið tillaga 7: Hefur áhrif 7 til 8 dagar á ári.
-
Eiðið tillaga 9: Hefur áhrif að meðaltali 17 daga á ári.
Kostnaðarmat Kostnaður við framkvæmdirnar er háður grjótnámi í Vestmannaeyjum. Allar kostnaðartölur eru með virðisaukaskatti:
-
Innri Skans: 1.374 milljónir króna.
-
Ytri Skans: 1.374 milljónir króna án garðs, 4.954 milljónir króna með garði.
-
Gjábakkafjara: 1.684 milljónir króna án garðs, 5.264 milljónir króna með garði.
-
Eiðið, tillaga 1: 7.168 milljónir króna (500 m brimvarnargarður og 200 metra kantur).
-
Eiðið, tillaga 7: 4.618 milljónir króna (300 m brimvarnargarður og 200 metra kantur).
-
Eiðið, tillaga 9: 7.638 milljónir króna (500 m brimvarnargarður og 200 metra kantur).
-
Eiðið, tillaga 9: 8.866 milljónir króna (með 500 m brimvarnargarður og tveimur 200 metra köntum).
Niðurstaða Á innri Skans eru hvað minnstar frátafir innan innsiglingar en kostur 1 norðan Eiðis er einnig með litlum frátöfum og með góðri tengingu við athafnalífið. Kostnaður við Eiðið er þó verulegur og krefst frekari kostnaðargreiningar.
Greinin byggir á gögnum úr meðfylgjandi skýrslu.
Til viðbótar varðandi grjótleit Eins og fram kemur hér að ofan eru kostnaðartölur háðar niðurstöðum grjótleitar, en borun lauk 13. mars. Teknar voru þrjár kjarnaholur og rúmlega tuttugu holur til að kortleggja svæðið. Að þessum áfanga loknum verður farið í að greina kjarnana og er reiknað með að þeirri vinnu ljúki í maí. Eftir það verður hægt að kostnaðarmeta framkvæmdir við stórskipakant enn frekar út frá því grjóti sem hér finnst.
Dóra Björk
hafnarstjóri