28. október 2020

Samstarfsverkefnið "Aðgerðir gegn ofbeldi á tímum Covid"

Guðrún Jónsdóttir yfirfélagsráðgjafi kom inn á fund Fjölskyldu- og tómstundaráðs kynnti samstarfsverkefnið "Aðgerðir gegn ofbeldi á tímum Covid".

Síðastliðið sumar var sýslumanninum í Vestmannaeyjum falið að stýra tilraunaverkefni sem felur í sér að efla og þróa samvinnu sýslumanna, lögreglu, félagsþjónustu og barnaverndar í málum er lúta að velferð og högum barna, með áherslu á vernd barna sem búið hafa við ofbeldi á heimili. Verkefnið er ein af sjö megintillögum aðgerðateymis gegn ofbeldi sem skipað var í maí af Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra. Aðgerðateymið skipa Eygló Harðardóttir og Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.
Hópurinn sem samanstendur af Arndísi Soffíu Sigurðardóttir, sýslumanni í Vestmannaeyjum, Arndísi Báru Ingimarsdóttur settum lögreglustjóra og Guðrúnu Jónsdóttur yfirfélagsráðgjafa hefur hist reglubundið síðan í sumar og var m.a. haldin vinnustofa í Vestmannaeyjum í sept. sl. með þátttöku fulltrúa frá lögreglu- og sýslumannsembættum, barnaverndarnefndum, félagsþjónustum og öðrum tengdum aðilum af öllu landinu, þar sem rætt var hvernig megi efla samstarfið á milli þessara stofnana. Framundan hjá hópnum er áframhaldandi vinna með niðurstöður vinnustofunnar s.s. útfærsla á ýmsum verklagsreglum og fræðsla og ráðgjöf frá Persónuvernd.