8. júní 2021

Ráðið hefur verið í stöðu verkefnastjóra í öldrunarþjónustu

Staða verkefnastjóra í öldrunarþjónustu var auglýst laus til umsóknar í maí sl. Verkefnastjóri í öldrunarþjónustu vinnur með þróun, samhæfingu, eftirlit og sérhæfingu í málaflokki öldrunarmála í samráði við yfirmann og í samræmi við stefnumótun sveitarfélagsins, leiðarljós og markmið fjölskyldu- og fræðslusviðs.

Samtals sóttu fjórir umsækjendur um stöðu verkefnastjóra í öldrunarþjónustu hjá fjölskyldu- og fræðslusviði. Umsóknir voru metnar út frá þeim þáttum sem fram komu í auglýsingu og vóg menntum, starfsreynsla, áhugi og þekking á öldrunarþjónustu þar mest. Allir umsækjendur voru kallaðir í viðtal. Framkvæmdastjóri sviðs fór yfir umsóknir og sá um viðtölin.

Við mat á umsækjendum kom Thelma Rós Tómasdóttir með hæsta vægi. Vó þar mest menntun hennar og starfsreynsla en Thelma sem er með BS í hjúkrunarfræði er að auki með diplómanám á meistarastigi í öldrunar- og heimahjúkrun auk viðbótar námskeiða í öldrunarráðgjöf og heilabilun. Thelma hefur starfað við þjónustu við aldraða frá 2014 og starfar í dag hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) Vestmannaeyjum bæði á heilsugæslu og í heimahjúkrun. Hefur hún reynslu af utanumhaldi og skipulagi heimahjúkrunar og þverfaglegu starfi við önnur þjónustustig aldraðra og við aðstandendur.

Vestmannaeyjabær býður Thelmu Rós velkomna til starfa.