27. janúar 2021

Nítján verkefni hlutu styrk úr „Viltu hafa áhrif 2021?“

Á mánudag afhenti Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs, samtals 19 styrkþegum fjárstyrki til verkefna sem hlutu styrk í tengslum við „Viltu hafa áhrif?“ fyrir árið 2021. 

Athöfn af þessu tilefni fór fram í Eldheimum og var með öðru sniði en vant er vegna samkomutakmarkanna.

Markmiðið með “Viltu hafa áhrif?“ er að stuðla að auknu íbúalýðræði í Vestmannaeyjum með því að gefa fólki, fyrirtækjum og félagasamtökum tækifæri á að hafa áhrif á fjárhagsáætlun hlutaðeigandi árs. Fjölmargar góðar ábendingar hafa borist í gegnum tíðina. Má þar m.a. nefna styrki til fjölda sýninga, menningartengda bókaútgáfa, leiktækja á opnum svæðum og göngustíga. Einnig hafa ávallt borist fjöldi ábendinga og er þeim alla jafna komið í fargveg innan bæjarkefisins.

Verkefnin sem hlutu styrki eru fjölbreytt og spennandi. Óskar Vestmannaeyjabær öllum styrkþegum til hamingju.

Samtals nam úthlutun fjárstyrkja 11 milljónum króna.

1. Akademía ÍBV og GRV 500.000 kr.

Akademía ÍBV og GRV hefur verið starfrækt frá ársbyrjun 2012 fyrir drengi og stúlkur í handknattleik og knattspyrnu. Til þess að geta haldið úti markvissri styrktarþjálfun þarf að endurnýja og kaupa ný tæki og áhöld eins og gúmmí handlóð, lóðaplötur, stangir, teygjur, dýnur, lyftingabekk og bolta.

2. „1000 andlit Heimaeyjar“ –ljósmyndasýning ( Bjarni Sigurðsson) 300.000 kr.

Menningar- og listagjörningur. Söfnun 1400 ljósmynda af heimafólki og fólki tengdum Eyjum. Stefnt er á sýningu á ljósmyndunum um næstu goslokahelgi.

3. „Komum Vestmannaeyjum á Google-kortið“ framh. verkefni (Davíð Guðmundsson) 500.000 kr.

Davíð fékk styrk í fyrra til að koma götum og vegaslóðum á Google-kortið. Í ár stendur til að koma gönguleiðum, fjallgönguleiðum, Herjólfsferð og úteyjunum á Google-kortið.

4. Nýr útvarpssendir (Eyjavarp/Snorri Rúnarsson) 500.000 kr.

Til stendur að endurnýja gamla útvarpssendinn sem er að syngja sitt síðasta.

5. Þáttagerð um Vestmannaeyjar (Eyþór Viðarsson og Hem Cleveland) 200.000 kr.

Til stendur að gefa út 12 þætti á Youtube, einn á mánuði. Hugmyndin er að heimsækja 6 söfn á eyjunni og skipuleggja göngu á 6 kennileiti. Fengnir verða leiðsögumenn til að dýpka þekkinguna. Jafnframt verð kennd íslensk orð en þættirnir verða mestmegnis á ensku.

6. Fimleikafélagið Rán – áhaldakaup (Sæmundur Einarsson) 1.500.000 kr.

Styrkur til áhaldakaupa svo hægt sé að halda fimleikamót í Eyjum.

7. www.heimaslod.is (Frosti Gíslason) 500.000 kr.

Uppfærsla á heimaslod.is. Gera kerfið öruggara gagnvart tölvuárásum og einfalda skrásetningu. Til stendur að uppfæra bakenda kerfisins og styðja við hin ýmsu skráarsnið og uppfærslur. Tilgangurinn er að styðja við menningartengda ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum.

8. Vinna við þáttaframleiðslu og sýning á upptökum frá Eyjum (Halldór B. Halldórsson) 400.000 kr.

Að skrásetja söguna með ljósmyndun og kvikmyndun. Upptökur af menningarviðburðum og viðtöl. Upptökur aðgengilegar á vef Sagnheima.

9. „Hann elskaði þilför hann Þórður“ – heimildarmynd (Helga Hallbergsdóttir) 300.000 kr.

Þórður Rafn stundaði sjómennsku í rúma fjóra áratugi. Á starfsferli sínum safnaði hann saman ýmsu dóti, tólum og tækjum. Safn hans af bátalíkönum sem tengjast útgerðarsögu Vestmannaeyja er líka einstakt.

Markvisst er unnið að skipulagningu og skráningu muna Þórðar Rafns með það í huga að fleiri geti notið, svo sem skólahópar, eldri borgarar og almenningur. Gera á heimildarmynd þar sem Þórður Rafn gengur um sjóminjasýningu sína og segir frá. Myndin verður heimild um gamla verkmenningu og útgerðarsögu Vestmannaeyja.

10. Flugeldabingó ÍBV og Handboltaskóli ÍBV (ÍBV Handbolti/Vilmar Þór) 800.000 kr.

Undanfarin ár hefur handknattleiksdeild ÍBV staðið fyrir flugeldabingói sem haldið er milli jóla og nýárs.

Hugmyndin er að skipuleggja handboltaskóla á milli jóla og nýárs fyrir 8-11 ára krakka í Vestmannaeyjum.

11. Tónleikar ÍBV (ÍBV knattspyrna/Daníel Geir) 800.000 kr.

Knattspyrnuráð sækir um styrk vegna tónleika deildarinnar sem er mikilvæg fjáröflun hjá félaginu. Í fyrra var frumraun sem lukkaðist vel. Að deginum til er fjölskylduskemmtun sem ekki kostar inn á og um kvöldið eru hefðbundnir tónleikar fyrir fullorðna.

12. Við erum ÍBV - Sýningar og saga ÍBV (Hörður Orri Grettirsson) 400.000 kr.

Saga og myndir úr starfi félagsins verða teknar sama og til sýnis í Týsheimilinu. Jafnframt er styrknum ætlað að bæta merkingar og skilti á svæði félagsins.

13. Kvennakór Vestmannaeyja – Vortónleikar 2021 (Lóa Baldvinsdóttir) 300.000 kr.

Kvennakórinn var stofnaður í mars 2020 og langar til að halda vortónleika í maí 2021 sem mun nýtast öllu samfélaginu í Vestmannaeyjum, því fátt gleður og sameinar eins mikið og söngur.

14. Rafíþróttafélag ÍBV (Jón Þór Guðjónsson) 500.000 kr.

Jón Þórhlaut fjárstyrk í fyrra til að stofna Rafíþróttafélag ÍBV. Félaginu voru sett lög og reglur og búið er að gera saminga um leigu á búnaði og hentugu húsnæði. Til þess að rekstur gangi fyrstu mánuðinu í starfsemi félagsins óskar Jón Þór eftir auknu fjármagni til þess að greiða niður leigu á búnaði.

15. Skátafélagið Faxi – útivistarsvæði í Skátastykki (Frosti Gíslason) 1.000.000 kr.

Styrkur til uppbyggingar á svæði félagsins í Skátastykki og viðhalds mannvirkja Skátafélagsins.

16. Snóker- og pílufélag Vestmannaeyja (Júlíus Ingason og fleiri) 500.000 kr.

Stofnun félagsins, húsnæði og snókerborð. Snóker hefur verið stundað í Vestmannaeyjum í áratugi og síðustu ár hefur iðkunin aðallega verið bundin við klúbbastarf. Hugmyndin er að koma á fót Snókerfélagi í Vestmannaeyjum með stuðningi Billiardsambands Ísland. Pílukast er einnig vaxandi íþrótt. Félag sem þetta og aðstaða myndi stórlega bæta afþreyingarkosti bæjarbjúa á öllum aldri.

17. „The Puffin Run“ Styrkur til markaðssetningar (Magnús Bragason) 500.000 kr.

Búa til kynningarefni sem gæti nýst næstu árin. Til er myndbandsefni frá síðasta hlaupi, en fleiri myndbönd þarfnast vinnu fagfólks, en jafnframt er styrkurinn hugsaður til birtingar auglýsinga.

18. Vélhjólaíþróttafélag Vestmannaeyja –viðhald og uppbygging á moto-cross braut félagsins. (Sigurjón Eðvarðsson) 500.000 kr.

Vélhjólaíþróttafélag Vestmannaeyja var stofnað árið 2002. Skráðir félagsmenn í VÍV eru um 40 talsins. Fjárstyrkurinn er ætlaður til að greiða fyrir leigu á vinnuvélum og tækjum sem eru nauðsynleg svo hægt sé að gera brautina og svæðið í kring nothæft fyrir alla sem iðka motocross í Vestmannaeyjum. Nauðsynlegt er að hreinsa og ryðja brautina reglulega eða um 3-4 sinnum á ári.

19. www.lundi.is – vefsíða vegna pysjueftirlits (Gígja Óskarsdóttir/Þekkingarsetur Vm) 1.000.000 kr.

Gígja og Þekkingarsetur Vestmannaeyja fengu styrk í fyrra til að hefja þetta verkefni. Settar voru ljósmyndir á vefinn sem tengjast nöfnum barna, kort yfir fundarstaði og skráningu á fjölda lundapysja. Fjárstyrkurinn í ár er veittur til að halda þessu góða starfi áfram og bæta síðuna. Jafnframt til að útbúa fræðslumyndband fyrir börn.

  • 2_1611738227496
  • 1_1611738226636
  • 3_1611738226901
  • 5_1611738227341
  • 8
  • 10
  • 6
  • 15
  • 14
  • 7
  • 11
  • 12
  • 17
  • 16
  • 4_1611738227626
  • 13
  • 9