7. júlí 2021

Ljósleiðaravæðing Vestmannaeyja

Á fundi bæjarstjórnar í gær var samþykkt samhljóða að ráðast í ljósleiðaravæðingu í þéttbýli Vestmannaeyja og stefnt að því að öll fyrirtæki, stofnanir og heimili í Vestmannaeyjum verði komin með ljósleiðaratengingu árið 2024. 

Um er að ræða framhald af ljósleiðaravæðingu í dreifbýli sem hófst á síðasta ári. Áætlað er að fyrstu húsin í þéttbýli verði tengd á fyrri hluta árs 2022. Kröfur um ljósleiðarakerfi hafa aukist mjög undanfarin ár og ljóst að slíkt kerfi er einn af mikilvægustu innviðum í nútímasamfélagi. Það er því ánægjulegt að bæjarstjórn skuli vera einhuga um að ráðast í þessa mikilvægu framkvæmd og stórbæta þannig ýmsa möguleika til framþróunar, bættrar þjónustu og tækifæri á fjölbreyttari störfum.

Bæjarstjórn fól bæjarstjóra og stjórnendum Vestmannaeyjabæjar að ljúka við undirbúning á einkahlutafélagi um ljóðsleiðaravæðingu í þéttbýli og vinna drög að stofnsamþykktum félagsins. Jafnframt fól bæjarstjórn þeim að móta tillögur um fjármögnun verkefnisins, sem byggir á því að Vestmannaeyjabær láni einkahlutafélaginu fé til framkvæmdarinnar. Þá stendur til að ræða við þá einkaaðila sem sýnt hafa áhuga á að taka þátt í ljósleiðarvæðingunni. Loks var samþykkt að framkvæmdum ljúki á fyrri hluta ársins 2024. Um er að ræða viðamikið, tímafrekt og flókið verkefni.

Nánar er fjallað um málið í fundargerð bæjarstjórnar og minnisblaði í viðhengi fundargerðarinnar á vef Vestmannaeyjabæjar.