6. júní 2020

Gleðilega sjómannahelgi!

Sjómannadagurinn snertir okkur sem búum á einum stærsta útgerðarstað landsins ávallt á sérstakan hátt. 

Þennan dag erum við minnt rækilega á hver er ein aðal undirstaða þeirrar velmegunar sem blómlegt atvinnu- og mannlíf Vestmannaeyja byggist á. Allt frá 1940 hefur sjómannadagurinn verið ein af stærstu hátíðum ársins í Eyjum og ávallt fjölmennt á dagskrár um sjómannadagshelgar.

Í ár er skuggi kórónuveirunnar yfir hátíðahöldunum. Víðar um land hefur skipulagðri dagskrá verið aflýst en í Vestmannaeyjum var ákveðið að snúa vörn í sókn. Vitaskuld þarf sjómannadagsráð sem skipuleggur hátíðina að fylgja öllum fyrirmælum og tilmælum um fjöldatakmarkanir og þess háttar en innan þeirra marka er allt gert til að hátíðin í ár geti orðið eins glæsileg og vant er.

Mér finnst eins og að í þeirri ákvörðun að halda sjómannadaginn með öllum þeim takmörkunum sem þarf að fylgja kristallist allt það besta í okkur Eyjamönnum. Við stöndum vörð um það sem skiptir okkur mestu máli og við viljum fá að þakka þeim sem skapa undirstöðuverðmætin okkar.

Sjómannadagurinn í ár markar þannig að mörgu leiti upphaf þess að Vestmannaeyjar eru að snúa aftur til baka til eðlilegs lífs eftir erfiðan vetur. Ósk mín er að sjómannadagurinn 2020 verði í minningunni dagurinn þegar Eyjamenn upplifðu að loksins væri vorið komið – tíminn þegar hið kröftuga mannlíf Vestmannaeyja hefði tekið völdin á ný.

Til hamingju með daginn sjómenn og fjölskyldur ykkar og Eyjamenn allir.

Íris Róbertsdóttir
Bæjarstjóri