Fjölþætt heilsuefling 60+ í Vestmannaeyjum
Heilsuefling fyrir eldri aldurshópa
Í síðasta mánuði undirrituðu Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar og Janus Guðlaugsson fyrir hönd Janusar heilsueflingar undir nýjan samstarfssamning um verkefnið Fjölþætt heilsuefling 60+ í Vestmannaeyjum – Heilsuefling fyrir eldri aldurshópa.
Í fyrri samningum var miðað við 65 ára og eldri en núna er verkefnið fyrir 60 ára og eldri. Starfsfólk Janusar heilsueflingar sér einnig um þjálfun fyrir notendur Bjargsins dagdvalar.
Meginmarkmið verkefnisins er að bjóða þátttakendum upp á heilsueflingu til lengri tíma í formi daglegrar hreyfingar með áherslu á þol- og styrktarþjálfun. Auk þess er boðið upp á fræðslu um næringu og aðra heilsutengda þætti.Á fyrsta stigi verkefnisins fá þátttakendur að jafnaði þrjár þjálfunarstundir á viku með sérhæfðum heilsuþjálfara auk áætlunar með daglegri hreyfingu sem byggð er á alþjóðlegum viðmiðum.
Samstarfsverkefnið milli Vestmannaeyjabæjar og Janusar heilsueflingar hófst árið 2019 og hefur samstarfið gengið mjög vel og mikil ánægja er með verkefnið. Hægt er að óska eftir þátttöku í verkefninu á heimasíðu Janusar heilsueflingar Janus - Heilsuefling.