1. desember 2023

Fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar 2024 samþykkt

Rekstrarafgangur 346. m.kr

Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur samþykkt samhljóða fjárhagsáætlun fyrir árið 2024.

Tekjur eru varlega áætlaðar og ekki gert ráð fyrir að skatttekjur ársins 2024 verði hærri en raunskatttekjur þessa árs.

Rekstrartekjur eru áætlaðar 8.988 m.kr. og rekstrarútgjöld eru áætluð 8.681 m.kr. á árinu 2024. Sem fyrr eru fræðslu- og uppeldismál sá málaflokkur sem tekur mest til sín, en aukin áhersla hefur verið lögð á að efla þennan málaflokk undanfarin ár og svo verður áfram. Enn sem fyrr verður gætt aðhalds í rekstri sveitarfélagsins og hagrætt þar sem við verður komið.

Gert er ráð fyrir 1030 m.kr. til framkvæmda á næsta ári. Stærstu framkvæmdir næsta árs eru stækkun Hamarsskóla, nýir búningsklefar við íþróttahúsið og gervigrasvöllur. Bæjarsjóður mun áfram fjármagna Eygló ehf. sem sér um ljósleiðaravæðingu í Eyjum.

Meðal áhersluverkefna næsta árs er rannsóknar- og þróunarverkefnið „Kveikjum neistann“, samstarf í ferða og markaðsmálum, áframhaldandi heilsuefling eldri borgara (Janusarverkefnið) og skipulagning nýrrar íbúðabyggðar.

Álögum stillt í hóf:

1. Álagningarprósenta útsvars verður óbreytt á næsta ári eða 14,68%.

2. Fasteignaskattur íbúðarhúsnæðis lækkar í 0,250%. Fasteignaskattur á fyrirtæki lækkar í 1,35%. Með þessari lækkun er verið að mæta hækkun á fasteignamati í Vestmannaeyjum. Um er að ræða lækkun álagningarprósentu fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði í fimmta sinn á sex árum og í fjórða sinn á atvinnuhúsnæði á fimm árum.

Gjaldskrárhækkunum er stillt í hóf . Viðbótarfjármagn er sett í leikskólana til að auka við snemmtæka íhlutun, heimgreiðslur og til að mæta aukinni þörf fyrir leikskólapláss fyrir börn frá 12 mánaða aldri.

Fjárhagsstaða Vestmannaeyjabæjar er sterk. Skuldir eru litlar og langt undir viðmiðunarmörkum sveitarstjórnarlaga. Það eru í raun fá, ef nokkur, sveitarfélög sem geta státað af álíka góðri skuldastöðu.

Úr framsögu Írisar Róbertsdóttur bæjarstjóra á bæjarstjórnarfundi sem haldinn var 30. nóvember 2023: „Það er ljóst að það er bjart framundan í rekstri Vestmannaeyjabæjar og raunar í öllu samfélaginu okkar, mörg spennandi verkefni í undirbúningi eða komin af stað. Þessar vikurnar eru þó blikur á lofti varðandi nokkur stór hagsmunamál Eyjamanna sem valda okkur áhyggjum en verða vonandi leidd til lykta með farsælum hætti innan tíðar, enda okkar færasta fólk að vinna að lausn þeirra. Við sjáum bjartsýni raungerast hér í Eyjum í formi fjárfestinga og uppbyggingar á vegum fyrirtækja og einstaklinga. Metnaður í fræðslu og menntamálum hefur vakið mikla athygli á landsvísu og frábært að fylgjast með þeim spennandi hlutum sem eru í gangi í þeim málaflokki.“

Í fjárhagsáætlun næsta árs er gert ráð fyrir að áfram verði gætt aðhalds í rekstri, en jafnframt leitast við að veita sem besta þjónustu með þarfir bæjarbúa í huga.

Glærukynning bæjarstjóra frá síðari umræðu um fjárhagsáætlun 2024 fylgir hér í framhaldi. Glaerukynning-vegna-fjarhagsaaetlunar-2024