Ásta Björk ráðin í starf aðalbókara
Vestmannaeyjabær hefur valið Ástu Björk Guðnadóttur í stöðu aðalbókara hjá Vestmannaeyjabæ. Fjórir umsækjendur voru um stöðuna en einn dró umsókn sína til baka.
Ásta Björk lauk námi frá NTV í bókhaldi og tók próf til viðurkenningar sem bókari með framúrskarandi árangri í lok árs 2023. Áður hafði Ásta Björk lokið B.Ed. gráðu frá Háskóla Íslands árið 2011.
Ásta Björk hefur starfað sem sérkennslustjóri á Kirkjugerði frá árinu 2022. Þá hefur Ásta Björk starfað sem ráðgjafi og við stjórnun verkefna og vinnustaða hjá Vestmannaeyjabæ frá árinu 2011.
Ásta Björk hefur í störfum sínum sýnt fram á mikla og góða hæfni í samskiptum ásamt því að hafa umtalsverða reynslu af teymisvinnu. Þá hefur hún sýnt fram á frumkvæði og sjálfstæði í starfi og þykir vera nákvæm og öguð í vinnubrögðum. Ásta Björk hefur góða almenna tölvukunnáttu, þekkir vel til Office365 og hefur lært á Navison bókhaldskerfið. Það er mat Vestmannaeyjabæjar að sú hæfni, þekking og reynsla sem Ásta Björk öðlaðist í námi til viðurkennds bókara, og í þeim störfum sem hún hefur sinnt, falli vel að þeim verkefnum og hæfnisþáttum sem tilgreindir voru í starfsauglýsingunni.