17. ágúst 2021

Áframhaldandi fjölþætt heilsuefling 65+ í Vestmannaeyjum !

Það var ánægjuleg stund þegar Vestmannaeyjabær og Janus-heilsuefling endurnýjuðu samstarfssamning um heilsueflingar og rannsóknarverkefnið „Fjölþætt heilsuefling 65+ í Vestmannaeyjum – Leið að farsælum efri árum". Verkefnið er framhald af tveggja ára verkefni og er Vestmannaeyjabær fyrsta sveitafélagið sem býður íbúum upp á framhaldsnámskeið.

Verkefnið í Vestmannaeyjum hófst í september 2019 og hefur þrátt fyrir Covid-19 faraldur og samkomutakmarkanir, leitt af sér framfarir á sviði hreyfifærni, þols og styrks auks þess sem mat einstaklinga á eigin heilsu hefur aukist á þjálfunartímanum. Markmið verkefnisins er að stuðla að bættri heilsu og lífsgæði eldri aldurshópa, draga úr útgjöldum ríkis og sveitarfélaga og vera fyrirmynd að heilsutengdum forvörnum. Um 80 þátttakendur tóku þátt í verkefninu. Verkefnið byggir á doktorsverkefni dr. Janusar Guðlaugssonar, íþrótta- og heilsufræðings. Hann í samstarfi við hæfa aðila frá Vestmannaeyjum stýra verkefninu. Það er ánægjulegt að sjá hversu margir þátttakendur eru í verkefninu og mikill stöðugleiki er í hópnum. Stöðuleikinn birtist í þeim góða árangi sem hópurinn hefur náð. Vestmannaeyjabær vill þakka Janusi og hans starfsfólki fyrir þeirra framlag til heilsueflingar í Eyjum, einnig gott samstarf við HSU í Vestmannaeyjum og sérstakar þakkir til þátttakenda í verkefninu.

Vestmannaeyjabær er stoltur af því að bjóða uppá þetta frábæra verkefni áfram.

Janus-og-Iris