11. júní 2020

Afhending hvatningarverðlauna og undirritun samninga vegna styrkja úr þróunarsjóði

Hvatningarverðlaun fræðsluráðs verða afhent 17. júní nk. kl. 12:00 í Einarsstofu. Jafnframt verða samningar vegna styrkja úr þróunarsjóði leik- og grunnskóla undirritaðir.

Fræðsluráð auglýsti í fyrsta skipti eftir umsóknum í nýstofnaðan þróunarsjóð leik- og grunnskóla í mars og í framhaldi eftir tilnefningum til hvatningarverðlauna í apríl. Alls bárust sex umsóknir í þróunarsjóðinn og verða samningar við styrkþega undirritaðir þann 17. júní en fyrsti hluti styrks afhentur við upphaf verkefnis. Þá bárust níu tilnefningar til hvatningarverðlauna og hljóta þrjú verkefni verðlaun. 

Markmið með þróunarsjóði leik- og grunnskóla er að stuðla að þróunar- og nýsköpunarstarfi í skólunum og með hvatningarverðlaunum að vekja athygli á því sem vel er gert í fræðslustarfi. 

Mörg áhugaverð verkefni eru í gangi í skólunum og margir kennarar að vinna göfugt og gott starf sem vert er að veita athygli og styrkja.