Vinna við gerð framtíðarsýnar og áherslna í skólastarfi hefur staðið yfir frá árinu 2020 en fræðsluráð skipaði breiðan starfshóp til að vinna að henni í febrúar það ár. Ferlið tafðist töluvert vegna heimsfaraldurs en vinnan gekk heilt yfir vel. Vinnufundir voru haldnir með öllum hagsmunaaðilum á leik- og grunnskólastigi, þ.e. fulltrúum sveitarfélags, kennurum og leiðbeinendum, nemendum og forráðamönnum.
Jafnframt var rafræn kosning um gildi sem leggja grunninn að framtíðarsýninni og eru leiðarljós í gerð aðgerðaáætlana sem skólarnir vinna við upphaf hvers skólaárs á meðan framtíðarsýnin er í gildi.
Starfshópurinn vann úr gögnum og setti fram drög að framtíðarsýn og áherslum í skólastarfi sem borin voru undir alla hluteigandi aðila. Lokaeintakið er nú tilbúið með framtíðarsýn, yfir- og undirmarkmiðum, áhersluþáttum og gildum og er aðgengilegt á heimasíðum leikskólanna, grunnskólans og Vestmannaeyjabæjar.
Fulltrúar allra hagsmunaaðila að framtíðarsýninni undirrituðu í dag samkomulag um að vinna ötullega að því að framtíðarsýn, áherslur og gildi séu höfð að leiðarljósi í öllu starfi skólanna í góðu samstarfi við foreldra og nemendur.
Fulltrúar sem undirrituðu samkomulagið eru:
Anna Rós Hallgrímsdóttir, skólastjóri GRV og Víkurinnar
Ásta Hrönn Elvarsdóttir, formaður nemendaráðs GRV
Eyja Bryngeirsdóttir, skólastjóri Kirkjugerðis
Helena Björk Þorsteinsdóttir, f.h. foreldrafélaga leik- og grunnskóla
Helga Björk Ólafsdóttir, skólastjóri Sóla
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri
