Leikritið ?hvað EF" var sýnt í Bæjarleikhúsinu á sl. þriðjudag fyrir nemendur eldri deilda grunnskólanna og fyrir nemendur Framhaldsskólans. Hörður Oddfríðarson starfsmaður SÁÁ kom með leikhópnum og fræddi nemendur FÍV nánar um hvernig eiturlyf og neysla getur farið með einstaklinga og fjölskyldur. Undirritaður ræddi við nokkra nemendur úr grunnskólunum og þótti þeim þessi sýningin skemmtileg og áhugaverð og voru sammála um að það hefði ekki verið neitt pedíktunarrugl í gangi.
Um er að ræða leiksýningu sem notast við leik, söng, ljóð og tónlist til fræðslu. Það er á mjög nýstárlegan og skemmtilegan máta farið yfir kaldar staðreyndir varðandi neyslu vímuefna. Markmiðið er að sýna unglingum fram á að þeir hafa val, og að margar saklausar ákvarðanir geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Leikritið segir sögu manns/konu frá unglingárum til fullorðinsaldurs. Brugðið er upp svipmyndum úr lífi og starfi og baráttu við fíkn eiturlyf og fleira. Gengið er út frá því að einstaklingurinn sé haldinn fíkn og einnig er brugðið upp myndum úr lífi hans EF fíkn hefði ekki stjórnað gerðum og hugsunum.
Íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Vestmannaeyjabæjar Ólöf A. Elíasdóttir og forvarnarfulltrúi FÍV Erlingur Richardsson hafa unnið að því að koma þessari sýningu á fjalirnar í Eyjum og hafa leitað eftir styrktaraðilum að þessu verkefni. Vinnslustöðin, Ísfélagið, Íslandsbanki, Sparisjóður Vestmannaeyja og Tryggingamiðstöðin styrkja þetta verkefni. Samvinna þessara aðila, Vestmannaeyjabæjar og FÍV gerir það að verkum að hægt er að bjóða nemendum þessar sýningar ókeypis.
540 Gólf leikhús og SÁÁ í samstarfi við Hafnarfjarðarleikhús standa að leiksýningunni sem sýnd verður í Bæjarleikhúsinu á morgun fyrir nemendur unglinga grunn- og framhaldsskólans
Höfundar texta, ljóða og tónlistar : Einar Már Guðmundsson rithöfundur, Valgeir Skagfjörð rithöfundur/tónlistamaður og leikhópurinn. Leikarar: Felix Bergsson, Guðmundur Ingi Þorvaldsson. Orri Huginn Ágústsson. Leikstjóri: Gunnar Sigurðsson
Við þökkum hópnum kærlega fyrir komuna og öllum hlutaðeigendum góðan stuðning.
Andrés Sigurvinsson framkvæmdastjóri fræðslu- og menningarsviðs.