Stefnumótunarfundur með bæjarbúum í sal Barnaskólans nk. þriðjudag. Lokadrög lögð fyrir fundinn.
Rúmlega 120 manns mættu á stefnumótunarfundinn um nýja skóla- og æskulýðsstefnu sem haldinn var í Alþýðuhúsinu á dögunum. Drög að nýrri skóla- og æskulýðsstefnu lá þar fyrir og höfðu fundarmenn haft tækifæri til að kynna sér þau fyrir fundinn. Sama verður upp á teningnum á næsta stefnumótunarfundi, sem haldinn verður í sal Barnaskólans í Vestmannaeyjum á þriðjudaginn 7.janúar nk. og hefst fundurinn kl. 20.00. Sjá auglýsingu á vef og í bæjarblöðunum.
Á síðasta fundi fór Trausti Þorsteinsson verkefnisstjóri frá skólaþróunarsviði Háskólans á Akureyri yfir helstu atriði í drögunum, bakgrunn og undanfarandi vinnu nefndarinnar. Síðan var fólki skipt upp í 12 vinnuhópa sem fengu það hlutverk að skrifa niður veikleika og styrkleika draganna sem lágu fyrir eins og fyrr segir. Síðan gerði hver hópur grein fyrir niðurstöðum sínum í lok fundarins. Almenn ánægja var ríkjandi með drögin, um leið komu margar gagnlegar ábendingar fram hvað betur mætti fara og bent var á atriði sem hnykkja þyrfti á. Verkefnisstjóri þakkaði fundarmönnum ánægjulegan fund og gerði mönnum grein fyrir hver næstu skref yrðu í málinu. Hann og starfsmenn hans myndu lista upp athugasemdir sem fram komu á fundinum og vinna úr þeim.Nú er þeirri vinnu lokinni og er því boðað til annars stefnumótunarfundar með bæjarbúum þar sem þeir hafa lokatækifæri til að koma með skriflegar ábendingar og breytingatillögu.
Fræðslu- og menningarsvið mun koma stefnumótunarplagginu í kynningu, bæði á vef bæjarins svo og að senda á eins marga í gegn um tölvupóst og mögulegt er. Eins mun stefnumótunarplaggið liggja fyrir í Ráðhúsinu.
Alls hafa verið haldnir 12 fundir í verkefnisstjórninni og hefur vinnunni miðað mjög vel og gert er ráð fyrir að fullmótuð skóla- og æskulýðsstefna fyrir Vestmannaeyjabæ verði lögð fyrir bæjarstjórn um miðjan næsta mánuð.
Eins og fyrr segir komu yfir 120 á fundinn í síðustu viku, áður höfðu verið haldnir stefnu- og fræðslufundir varðandi nýja skóla- og æskulýðsstefnu - þannig í heild hafa komið yfir 400 manns að vinnu við þetta stefnumótunarplagg.
Andrés Sigurvinsson, framkvæmdastjóri fræðslu- og menningarsviðs Vestmannaeyjabæjar.