Hlutverk notendaráðs, sem er skipað fötluðu fólki, felst í því að gefa álit sitt á stefnumótun um málefni fatlaðs fólks í Vestmannaeyjum. Notendaráð getur einnig tekið upp mál að eigin frumkvæði og rætt ábendingar og tillögur sem koma frá notendum þjónustunnar, þó ekki er varða einstaklingsmál.
Notendaráð um málefni fatlaðs fólks er skipað sex fulltrúum. Seta í notendaráði er ólaunuð.
Þeir sem áhuga og vilja taka þátt í starfi notendaráðs geta haft samband við Lísu Njálsdóttur fagstjóra í málaflokki fatlaðs fólks; lisa@vestmannaeyjar.is, s. 488 2620. Ef þátttaka er umfram þann fjölda sem sitja eiga í notendaráði verður dregið úr hópi umsækjenda.
Umsóknarfrestur er til 15 mars 2020
Notendaráð um málefni fatlaðs fólks
Samkvæmt lögum nr.38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og jafnframt 8. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga (nr 40/1991, með síðari breytingum) sem tóku gildi 1. október 2018, skulu sveitarfélög hafa samráð við notendur. Samráð skal haft við notendur félagsþjónustunnar með það að markmiði að þeir séu virkir þátttakendur í undirbúningi ákvörðunar um þjónustu og hvernig henni verður háttað. Þá skal hafa samráð við notendur við almenna stefnumörkun innan sveitarfélagsins. Sveitarfélög skulu a.m.k. árlega funda með hagsmunasamtökum notenda félagsþjónustunnar og skulu starfrækja sérstök notendaráð sem tryggi aðkomu hagsmunasamtaka notenda við stefnumörkun og áætlanagerð sveitarfélagsins í málefnum er varðar meðlimi þeirra. Tryggja skal þátttakendum stuðning og þjálfun til virkrar þátttöku í notendasamráði.
Hlutverk notendaráðs er að gera fötluðu fólki kleift að hafa áhrif á skipulag og framkvæmd þjónustu sveitarfélaganna. Notendaráð á að koma rödd fatlaðra íbúa á framfæri og stuðla að jafnrétti þeirra á við aðra, fylgjast með stefnumótun og þróun hugmyndafræði er varða réttindi fatlaðs fólks og vera leiðandi í framþróun málefna þess. Notendaráðið getur einnig tekið upp mál að eigin frumkvæði og rætt ábendingar og tillögur sem koma frá notendum þjónustunnar, þó ekki er varða einstaklingsmál. Starfsmaður fjölskyldusviðs er starfsmaður ráðsins, boðar til funda og ritar jafnframt fundargerðir þess.
