Vika símenntunar verður haldin dagana 24. - 30. september sem almennt hvatningarátak um allt land. Menntamálaráðuneytið stendur fyrir Viku símenntunar en Mennt sér um framkvæmd og skipulagningu verkefnisins í samstarfi við símenntunarstöðvarnar níu á landsbyggðinni og Mími á höfuðborgarsvæðinu.
Vika símenntunar er kynningar - og hvatningarátak og er ætlað að ná út um allt land. Áhersla Vikunnar í ár er að ná til þeirra sem hafa stutta formlega menntun. Markmið Vikunnar er að vekja fólk til umhugsunar um að menntun er æviverk og að ávallt er hægt að bæta við sig þekkingu. Átakinu er ætlað að hvetja almenning til þess að afla sér upplýsinga um hvað í boði er og nýta sér það. Í framhaldi af þessu munu símenntunarstöðvarnar ásamt Mími skipuleggja dagskrá þar sem meðal annars verður boðið upp á ókeypis námskeið og ráðgjöf fyrir almenning í Vikunni.
Símenntunardagur í fyrirtækjum
Miðvikudagurinn 27. september verður tileinkaður árlegum símenntunardegi í fyrirtækjum og stofnunum. Þann dag eru fyrirtæki og stofnanir hvött til að tileinka fræðslumálum starfsmanna og er þá til dæmis hægt að kynna starfsmönnum fræðslustefnu, halda námskeið eða bjóða upp á ráðgjöf.
Fyrirtæki og stofnanir eru hvött til að láta Mennt vita með hvaða hætti þau nýta sér átakið. Upplýsingar má senda á mennt@mennt.is.
Kynningar
Samstarf verður haft við fjölmiðla um kynningar og tengingu við Viku símenntunar. Veggspjaldi Viku símenntunar verður dreift um landið í byrjun september m.a. í fyrirtæki, stofnanir og á almenningsstaði svo sem bókasöfn og sundlaugar. Vefsíða Viku símenntunar er á slóðinni www.mennt.is/simenntun en þar er safnað saman tenglum og fróðleik tengdum símenntun ásamt þeim viðburðum sem eiga sér stað í Vikunni. Hægt er að nálgast merki Viku símenntunar á heimasíðunni, ef óskað er eftir því að tengjast átakinu eða setja það á heimasíður.
Við hvetjum alla til þess að senda inn tengla og efni á mennt@mennt.is.