Fara í efni
24.05.2006 Fréttir

Viðurkenning fyrir texta í Fernuflugi MS 2006

Tveir nemendur Barnaskólans þau Ásdís Guðmundsdóttir 7. SG og Arnar Baldvinsson 7. GJ hlutu viðurkenningu fyrir texta sína í Fernuflugi Mjólkursamsölunnar. Keppni þessi var fyrir alla nemendu
Deildu

Tveir nemendur Barnaskólans þau Ásdís Guðmundsdóttir 7. SG og Arnar Baldvinsson 7. GJ hlutu viðurkenningu fyrir texta sína í Fernuflugi Mjólkursamsölunnar. Keppni þessi var fyrir alla nemendur á miðstigi í grunnskólum landsins og aðeins 32 börn fengu viðurkenningu. Krökkunum var boðið til Reykjavíkur til að taka á móti viðurkenningunni og fengu þau sérstakan penna að gjöf að auki. Efni Fernuflugsins var Hvað er að vera ég? og munu textarnir birtast á um 32 milljónum ný- og léttmjólkurferna næstu 2 árin. Tekið var tillit til innihalds, málnotkunar, einlægni og skýrleika í mati á verkefnunum. Glæsilegur árangur hjá þeim Ásdísi og Arnari og erum við í Barnaskólanum virkilega stolt af þeim.

Ég er bara ég.

Ég er ekkert annað.

Hví er ég ekki hann,

af hverju er það bannað?

Get ég verið lögreglumaður

og leysi flókna glæpi,

eða kannski söngvari

og lögin syng og æpi?

Kannski verð ég kennari

og tóma hausa fylli.

Eða bara sjóari

sem siglir hafa á milli.

Allt er þetta óvíst

er í framtíð mína leit.

Hvað er að vera ég?

Það ég ekki veit.

Arnar Baldvinsson

7.G.J. Barnaskóla Vestmannaeyja.

Hvað er að vera ég?

Hvað er að vera ég?

Það er að fá aldrei að ráða

hverjir deyja og hverjir lifa,

hvort það sé friður eða stríð í heiminum,

hverjir eru ríkir og hverjir fátækir,

hverjir hamingjusamir og hverjir óhamingjusamir.

Það er að geta ekki ráðið hvað ég heiti

og hvenær ég á afmæli,

hvað ég er gömul og hver ég er í raun og veru,

hvað ég er há og hvernig ég lít út.

Er þetta sanngjarnt?

Það er líka að hugsa,

hugsa of mikið.

Um allt sem ég get orðið,

fátæk eða rík,

hamingjusöm eða óhamingjusöm.

Svona er að vera ég.

Ásdís Ósk Guðmundsdóttir, Barnaskóla Vestmannaeyja

Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar.

Hvað er að vera ég?