Fara í efni
08.09.2021 Fréttir

Hér má lesa viðtal við Óla Lár sem tekið var í sumar vegna starfsloka hans

Óli Lár hættir nú kennslu eftir rúmlega 36 ár.
Deildu

Hvað hefur þú unnið lengi hjá bænum/ hvenær byrjaðir þú?

Óli segist hafa byrjað að kenna árið 1985 vestur í Hamarsskóla og síðar við GRV. Kennsluferill hans er samt lengri, því hann var bæði að kenna í stýrimannaskólanum og framhaldsskólanum.

Hvernig er starfsferillinn þinn?

Starfsferill Óla byrjaði með að hann lærði smíðar hjá föður sínum og hann minnir að það hafi verið árið 1972 og kláraði hann einnig gagnfræðiskólann sem var í Eyjum á sínum tíma. Eftir gagnfræðiskólann velti hann fyrir sér að byrja í kennaranámi en byrjaði ekki þá en námið blundaði alltaf í honum. Hann vann hjá Ísfélaginu eina vertíð og fór svo að læra að smíða. Í gosinu var Óli og einn félagi hans sendir í Iðnskólann í Reykjavík og kláruðu þeir þann áfanga. Eftir það fluttu þeir tveir til Noregs, fóru að vinna og voru þeir þar sumarið 1973. Eftir það flytja þeir aftur heim og þá fer Óli að vinna hjá Viðlagasjóði en fer svo að læra smiðar strax eftir það og var að smíða til árins 1983 með ýmsum ,,variasjónum“ eins og Óli kallar það. Þegar Óli var búinn að læra þá fer hann að vinna fyrir Vinnslustöðina en sér svo að smíðakennarastaða við Hamarskóla er laus, hann sækir um og fær stöðuna. Eftir það fór hann í Kennaraskólann og lærir kennara- og uppeldisfræði. Hann vann út í Noregi í eitt ár og fór einnig út til Afríku að vinna og hefur því aðeins verið að þvælast.

Hvað stendur upp úr?

Óli segir að það hafi verið mjög merkilegt að vinna með fátækasta fólki í heimi niðri í Afríku. Hann segir að það hafi verið mikil reynsla og það hafi kennt honum margt og kannski miklu meira en hann hafi gert sér grein fyrir þ.e. að vinna með fólki þar sem aðstæður þess og heimur var ekkert annað en himininn, jörðin og svo var bara fólk sem átti mjög bágt og var að deyja úr hungri, það var ekkert flóknara segir hann.

Hefur margt breyst á tíma þínum hjá bænum?

Óli segir ekki mikið hafa breyst á tíma sínum hjá bænum sem kennari, húsnæðið er eins og nemendurnir nokkuð svipaðir, en það er margt innan kennslufræðinnar sem hefur breyst og það sem er leiðsögn þeirra í þessum greinum í skólanum breytist alltaf með nýrri námsáætlun og síðan gefur ráðuneytið út leiðarvísi. Óli segir að orðalagið sé orðið svolítið hátíðlegt hjá þeim í ráðuneytinu, stundum mjög framandi því sú leiðsögn er næstum því ófær hún er svo skringilega orðuð. Hann segir að stærsta breytingin sé að það sé komin meiri raftækni inn í smíðakennsluna og að kannski sé horft meira til framtíðar í þeim efnum.

Hvað tekur við hjá þér þegar starfsferlinum er lokið?

Óli segir að það sem taki við hjá honum þegar starfsferlinum er lokið sé bara að lifa. Nú þegar er hann kennari í fríi og verður það fram í ágúst og þá er hann bara að sinna sínum áhugamálum en þegar því lýkur og hann fattar að hann þarf ekki að mæta í kennslu, þarf hann að velta því fyrir sér hvað hann eigi að fara að gera. Hann á sín hobby, Óli er áhugaljósmyndari svo hefur hann verið að hlusta á Einar Kárason, hefur verið á fyrirlestrum hjá honum um hvernig eigi að skrifa skáldsögu. Hann segist eiga nokkrar lygasögur sem hann þurfi að koma fram með, þannig hann er að undirbúa sig að skrifa þær.

Er eitthvað sem þú hefðir gert öðruvísi þegar þú lítur yfir farinn veg?

Óli segist ekki hafa viljað að gera neitt öðruvísi þegar hann lítur yfir farinn veg, en þau hjónin voru að velta því fyrir sér, þegar Óli fór að vinna í Noregi, að þau hefðu sennilega viljað búa þar áfram en að það hafi komið upp ákveðið atvik í Eyjum og þá hafi þau ákveðið að flytja aftur heim. Hann segir að annars væru þau sennilega ennþá í Noregi, en á öðrum stað.

Hvað myndir þú segja/ráðleggja ungum Óla Lár., ef þú fengir tækifæri til þess?

Það sem Óli myndi ráðleggja ungum Óla ef hann fengi tækifæri til þess er í fyrsta lagi að tala íslensku, og það að menn mega aldrei taka sig of hátíðlega en þurfi að tala íslensku við sína nemendur. Hann segir að nemendurnir þurfi að skilja það sem maður segir og það sé betra að tala alveg tæpitungulaust, því ef maður ætlar að setja sig á háan hest þá dettur maður af merinni og það getur orðið hátt fall.