Opnunartími stofnana Vestmannaeyjabæjar verður óbreyttur áfram, en fólk er hvatt til að nýta sér rafrænarlausnir eða símaþjónustu sé þess einhver kostur frekar en að mæta á staðinn. Staðan verður endurmetin reglulega. Sérreglur gilda um leik- og grunnskóla, Hraunbúðir, Heimaey hæfingarstöð, Sambýlið og Íþróttamiðstöðina. Forstöðumenn umræddra stofnana hafa útbúið og birt reglur.
Allir formlegir fundir á vegum stofnanna bæjarins, sem telja fjóra eða fleiri fundarmenn, eiga að fara fram með fjarfundabúnaði. Fundir nefnda, ráða og bæjarstjórnar Vestmannaeyja muna fara fram með fjarfundarbúnaði næstu tvær vikur eða á meðan þessar hertu takmarkanir eru í gildi.
Vinnferðir á vegum sveitarfélagsins eru ekki heimilar næstu meðan auglýsing heilbrigðisráðherra um hertar takmarkanir eru í gildi. Starfsfólki Vestmannaeyjabæjar er aðeins heimilt að „sækja“ fundi uppi á landi í gegnum fjarfundarbúnað.
Búið er að gera viðeigandi ráðstafanir á stofnunum bæjarins til þess að tryggja fjarlægðarmörk og sóttvarnir. Búið er að skipta upp kaffitímum, þar sem það er nauðsynlegt, og tryggja starfsfólki grímur, spritt og annan sóttvarnarbúnað.
Öllum viðburðum á vegum bæjarins verður frestað, a.m.k.á meðan samkomutakmarkanir eru í gildi.
Starfsfólk á að halda ferðum á milli stofnana og starfsstöðva í algjöru lágmarki.
Ítrekað hefur verið við forstöðumenn og starfsfólk að virða metersregluna í öllum samskiptum, þ.m.t. við samstarfsfólk á vinnustöðum.
Búið er að yfirfara og uppfæra viðbragðsáætlun Vestmannaeyjabæjar og birta á vef bæjarins; vestmannaeyjar.is
Vestmannaeyingar eru hvattir til að virða reglur og tilmæli stjórnvalda og sóttvarnarlæknis. Jafnframt er fólk hvatt til að stilla ferðum til og frá Eyjum í hóf og taka fjarlægðarmörkum alvarlega. Vestmannaeyingar voru svo rækilega minntir á afleiðingar Covid-19 síðastliðið vor. Gerum hvað við getum til að láta þetta ganga upp og höldum áfram að sinna eigin smit- og sóttvörnum.
Íris Róbertsdóttir
bæjarstjóri
