Má þar nefna sýningu á verkum Kjarvals í eigu bæjarins á nýársdag, frímerkjasýningu helgaða Vestmannaeyjum 7. febrúar, hátíðarfund bæjarstjórnar 14. febrúar og sýningu á verkum grunnskólabarna sem skoða sögu Eyjanna á sinn hátt sem opnaði daginn áður. Þá má ekki gleyma bæjarstjórnarfundi unga fólksins sem heppnaðist mjög vel. Heldur ekki málþinginu Nútíð, fortíð og framtíð Vestmannaeyja, tækifæri og ógnanir þar sem fimm frábærir fyrirlesarar skoðuðu stöðu Eyjanna og hvaða möguleika við eigum. Og möguleikarnir eru margir.
Áfram verður haldið en til að koma þessu öllu til skila hefur verið opnuð gátt á vestmannaeyjar.is þar sem greint verður frá því sem fram undan er sem og ýtarlega greint frá hverjum lið fyrir sig. Sumt er þegar að finna inni á heimasíðunni en nú verður þetta allt á einum stað. Er þetta hugsað fyrir áhugasama og ekki síður fyrir kynslóðir framtíðarinnar til að glugga í þegar saga Eyjanna er skoðuð og rifjuð upp.
Auk þess verður safnað saman tenglum sem tengjast viðburðum afmælisársins.