Menningarnótt var haldin í fyrsta sinn árið 1996 og hefur frá upphafi skipað mikilvægan sess í viðburðahaldi í borginni þar sem listafólk, íbúar og rekstraraðilar fá tækifæri til að bjóða til veislu í miðborginni.
Vestmannaeyjabær hefur, í samstarfi við Reykjavíkurborg og fleiri aðila, undirbúið glæsilega dagskrá, um viðburði sem tengjast bæði gosinu á Heimaey árið 1973 og hinni alkunnu Þjóðhátíð sem haldin er ár hvert í Eyjum.
Ráðhús Reykjavíkur: Laugardagur, 19. ágúst
Í Tjarnarsal Ráðhússins verður komið fyrir hvítu þjóðhátíðartjaldi og boðið upp á ekta Eyjastemningu á vegum ÁtVR (Átthagafélags Vestmannaeyinga á Reykjavíkursvæðinu) ásamt léttum veitingum. Auk þess verður fjöldahjálparmiðstöð Rauða krossins á staðnum, en Rauði krossinn skipaði stórt hlutverk í björgunarferlinu meðan á Heimaeyjargosinu stóð. Þá munu ljósmyndir af liðnum Þjóðhátíðum og lifandi myndir úr Heimaeyjargosinu rúlla á stórum skjám ásamt því sem tveimur stórum vikursúlum verður stillt upp á staðnum til að sýna á lifandi hátt hversu gríðarlegt öskumagn settist yfir Vestmannaeyjabæ.
- Kl. 12:30 Ráðhúsið opnar, létt lög í Dalnum
- Kl. 13:00 Setning: Ávarp Dags. B. Eggertssonar, borgarstjóra Reykjavíkur og Írisar Róbertsdóttur, bæjarstjóra Vestmannaeyja
- Kl. 13:15 Þorsteinn Gunnarsson, borgarritari og Védís Guðmundsdóttir, vefstjóri Reykjavíkurborgar, flytja Oddgeirslag
- Kl. 13:20 Júníus Meyvant og hljómsveit flytja tónlist
- Kl. 14:30 Elva Ósk Ólafsdóttir les upp úr dagbók móður sinnar, Rögnu Lísu Eyvindsdóttur, Góu
- Kl. 14:45 Sæþór Vídó Þorbjörnsson og Kristín Halldórsdóttir flytja Eyjalög
- Kl. 16:00 Friðrik Dór og Jón Jónsson flytja tónlistaratriði að hætti Þjóðhátíðar
Hafnartorg: Föstudagur til sunnudags, 18.-20. ágúst
Tvær sýningar verða í Hafnartorgi Gallery (næst Edition hótelinu), Til hafnar og Við gosið. Báðar tengjast sýningarnar eldgosinu á Heimaey árið 1973.
Til Hafnar
Opnun ljósmyndasýningarinnar Til hafnar, þar sem minnst er siglingar bátanna frá Vestmannaeyjum hina örlagaríku nótt er eldgosið á Heimaey hófst árið 1973, verður föstudaginn 18. ágúst kl. 16:00. Hvorki fyrr né síðar hafa Vestmannaeyingar verið fluttir yfir hafið líkt og gert var aðfararnótt 23. janúar 1973. Allt að 80 skip og áhafnir sigldu með tæplega fimm þúsund íbúa til hafnar í Þorlákshöfn undir drunum og birtu frá eldgosinu á Heimaey. Þessa nótt urðu bátarnir líflína bæjarbúa. Á sýningunni hverfist sjóndeildarhringurinn um bátana og endurskapar þá sýn sem við höfum af hafinu og siglingum.
Ítarleg lýsing á ljósmyndasýningu bæði á íslensku og ensku
Sýningarstjórar: Joe Keys og Vala Pálsdóttir
Ávörp: Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur og Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja
Sýningin Til hafnar verður opin á eftirfarandi tímum:
- Föstudagurinn 18. ágúst kl. 16:00 – 18:00
- Laugardagurinn 19. ágúst kl. 12:00 – 17:00
- Sunnudagurinn 20. ágúst kl. 12:00 – 15:00
Við gosið
Ljósmyndasýningin Við gosið, sem sýnir ljósmyndir Sigurgeirs Jónassonar, verður í Hafnartorg Gallery. Sigurgeir myndaði gosið frá upphafi þess og þar til því lauk í júlí 1973. Um er að ræða valdar ljósmyndir Sigurgeirs af gosinu, þ.á.m. hina þekktu mynd af Landakirkju með eldhafið í baksýn. Það er vandasamt verk að velja úr safni Sigurgeirs, en eldgosamyndir hans hlaupa á þúsundum. Sýningin verður aðgengileg á opnunartímum Hafnartorgs Gallery fram til 3. september n.k.
Ítarleg lýsing á ljósmyndasýningu
Sýningarstjóri: Vala Pálsdóttir
Vestmannaeyjabær hvetur alla, bæði Vestmannaeyinga og aðra áhugasama, til að sækja viðburði um Vestmannaeyjar á hátíðinni og taka þátt í veisluhöldum og sýningum helgarinnar. Jafnframt eru gestir hvattir til að kynna sér götulokanir og bílastæðamál í miðborginni á vef Menningarnætur.
