Fara í efni
06.05.2021 Fréttir

Verkefnastjóri í Safnahúsi

Vestmannaeyjabær auglýsir laust til umsóknar starf verkefnastjóra í Safnahúsi með aðsetur í Safnahúsinu við Ráðhúströð. Verkefnastjóri er jafnframt staðgengill forstöðumanns Safnahússins. Um er að ræða 100% starf.

Deildu

Leitað er eftir öflugum og hugmyndaríkum einstaklingi sem er tilbúinn að vinna sem hluti af heild að stefnumótun, framtíðarsýn, uppbyggingu og eflingu safnastarfs í Vestmannaeyjum ásamt því að vinna með margvíslegum hætti úr þeim menningararfi sem varðveittur er í söfnum Vestmannaeyjabæjar. Til að ná því markmiði tekur verkefnastjóri þátt í að skipuleggja og bjóða upp á fjölbreyttar menningartengdar dagskrár og hvers kyns aðra viðburði í Safnahúsinu sem miðla þeirri ríkulegu menningu sem söfnin varðveita. Um er að ræða dagvinnu, en verkefnastjóri þarf jafnframt að geta unnið utan hefðbundins vinnutíma í tengslum við viðburði sem eru utan opnunartíma safnsins.

Helstu verkefni eru

Safnahús:

  • Að taka þátt í að miðla þeirri menningararfleifð sem varðveitt er í söfnum Vestmannaeyjabæjar með skipulagningu á margþættum menningartengdum viðburðum, dagskrám og sýningum í Safnahúsi fyrir sem fjölbreyttasta viðtökuhópa.
  • Að efla samstarf við frjáls félagasamtök, einstaklinga og aðra sem vinna með safna- og menningararf Vestmannaeyja, þ.m.t. vegna skipulagðra dagskráa á vegum bæjaryfirvalda.
  • Að taka þátt í stefnumótun, framtíðarsýn og framkvæmd safnastarfa í samstarfi við bæjaryfirvöld, forstöðumann Safnahúss, hagsmunaaðila og annað starfsfólk.
  • Að annast gerð umsókna um fjárstyrki og eftirfylgni með veittum styrkjum fyrir starfsemi á vegum Safnahúss eða til eflingar safnastarfi í Vestmannaeyjum.

Sagnheimar:

  • Að annast daglega umsjón og skipulagningu, ásamt faglegri- og fjárhagslegri umsýslu á starfsemi Sagnheima, byggðasafns og náttúrugripasafns. Annast einnig sumaropnun með Landlyst/Skanssvæði.
  • Að annast skráningu og úrvinnslu á safnkosti Sagnheima auk þess að hafa umsjón með sýningum og forvörslu.
  • Að annast móttöku gjafa, taka á móti hópum og öðrum safngestum í Sagnheimum.
  • Að taka þátt í safnastarfi á landsvísu eftir því sem kostur er.
  • Að vinna ásamt skólum í Vestmannaeyjum við að efla skilning og áhuga yngri kynslóða á þeim menningararfi sem varðveittur er í söfnum með ýmiss konar samstarfi.
  • Að sjá um reglubundna safnfræðslu á vegum Safnhúss í samstarfi við aðra starfsmenn.

Hæfniskröfur

  • Gerð er krafa um háskólamenntun sem nýtist í starfi.
  • Reynsla og þekking á sviði safnamála er kostur.
  • Reynsla og þekking á sviði skólamála er kostur.
  • Reynsla af skipulagningu viðburða er kostur.
  • Frumkvæði, skipulagshæfni og sjálfstæði í vinnubrögðum.
  • Samskiptahæfni, jákvæðni, lipurð í mannlegum samskiptum og rík þjónustulund.
  • Færni til að virkja einstaklinga til samstarfs, stýra og fylgja eftir verkefnum og koma fram fyrir hönd stofnunarinnar.
  • Góð íslensku- og enskukunnátta ásamt getu til að setja fram á skýran hátt mál í ræðu og riti.
  • Krafa um góða alhliða tölvukunnáttu, s.s. Excel og Word.
  • Aðrir þættir sem nýst geta í starfi.


Nánari upplýsingar um starfið veitir Kári Bjarnason, forstöðumaður Safnahúss í síma 488 2040 eða með tölvupósti, kari@vestmannaeyjar.is.
Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi launanefndar sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélags.

Umsóknir ásamt menntunar- og starfsferilsskrám óskast sendar með tölvupósti á netfangið postur@vestmannaeyjar.is og merktar „Verkefnastjóri“. Einnig er unnt að skila umsóknum til bæjarskrifstofu Vestmannaeyja, Bárustíg 15, 900 Vestmannaeyjum.

Vestmannaeyjabær hvetur alla áhugasama um að sækja um starfið óháð kyni. Umsóknarfrestur um starfið er til 20 maí 2021.