Fyrsti fundur í ungmennaráði Vestmananeyja var haldinn föstudaginn 23. febrúar sl. Ungmennaráð er undirráð MTV og hefur það hlutverk að koma fram sem talsmaður unglinga og leggur mat á tillögur og stefnumótandi þætti er varða mál barna og unglinga á aldrinum 15-20 ára.
Helstu markmið og hlutverk ungmennaráðs er:
- að koma skoðunum og tillögum ungs fólks til viðeigandi aðila í stjórnkerfi sveitarfélagsins,
- að gæta hagsmuna ungs fólks t.d. með umfjöllun og umsögnum um einstök mál sem snerta aldurshópinn sérstaklega,
- að gera tillögur til bæjaryfirvalda að umbótum er varða æskulýðsmál,
- að fulltrúar ráðsins þjálfist í lýðræðislegum vinnubrögðum og læri á stjórnkerfi sveitarfélagsins,
- að vinna að því að ná fram markmiðum skóla- og æskulýðsstefnu sem og forvarnarstefnu Vestmannaeyjabæjar,
- gera tillögur til bæjarstjórnar um stefnumörkun um málefni ungs fólks.
Fyrsta verkefni ungmennaráðsins var að ræða hugmyndir MTV að menningarmiðstöð fyrir ungt fólk sem stefnt er að stofna fyrir ungmenni á aldrinum 16 - 25 ára.
Fyrirhugað er að margvísleg starfsemi verði í slíkri menningarmiðstöð sem og aðstaða, t.d. kaffihús nettenging, skjávarpi, borðtennisborð, fótboltaborðspil og jafnframt verði þar hægt að halda fyrirlestra, námskeið og aðrar uppákomur. Horft er til ungmennahúsa á borð við 88 húsið í Reykjanesbæ sem fyrirmynd þar sem rekstur þess hefur gengið vel frá upphafi.
MTV hefur lagt til að til leigu verði falast eftir húsnæði Miðstöðvarinnar á gatnamótum Heiðarvegar og Strandvegar nánar tiltekið neðri hæð húss er heitir Vosbúð.
Í ungmennaráði sitja Daði Magnússon, Gígja Óskarsdóttir, Margrét Steinunn Jónsdóttir, Ellert Scheving Pálsson, Sara Sigurðardóttir.
Jón Pétursson framkvæmdastjóri
fjölskyldu- og fræðslusviðs