Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra undirrituðu í dag umsókn til UNESCO um að Surtsey verði samþykkt inn á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna sem náttúruminjar. Til þess að komast inn á skrána þurfa viðkomandi náttúru- og menningarminjar að vera einstakar á heimsmælikvarða.
Í frétt um undirskriftina segir að íslensk stjórnvöld telji forsendur fyrir tilnefningu Surtseyjar vera tvíþættar. Annars vegar sé eyjan einstakt dæmi um þróunarsögu jarðar, þýðingarmikil ferli í landmótun, bergmyndun og jarðeðlisfræði. Hins vegar sé hún einstök vegna þess að þar hafa skapast og verið nýtt tækifæri til þess að fylgjast með aðflutningi, landnámi og þróun tegunda lífvera á lífvana landi og hvernig vistkerfi á landi og í hafinu verða til, mótast og þróast.
Af vef Eyjafrétta.is
Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyja.