Fara í efni
11.10.2012 Fréttir

Undirbúningur fyrir goslokahátíð 2013 er hafinn

Undirbúningur fyrir goslokahátíð 2013 er nú hafinn, en í janúar n.k. verða 40 ár liðin frá því að gos hófst á Heimaey. Mun miðvikudeginum 23. janúar verða gert hátt undir höfði með minningarstund og öðrum viðburðum. Goslokahátíðin okkar verður að sjálfsögðu á sínum stað fyrstu helgina í júlí, þ.e. 5.-7. júlí 2013. Þess á milli verða fjölbreyttir viðburðir tengdir gosinu.
Deildu
Goslokahátíðin er hátíð sem Vestmannaeyingar geta verið stoltir af. Hún er tákn magnaðrar sögu sem er einsdæmi í íslensku samfélagi og þó víðar væri leitað. Um leið og við vottum sögunni og náttúrunni þá virðingu sem hún á skilið og minnumst þeirrar óvissu, ótta og sorgar sem Vestmannaeyingar gengu í gegnum þá hyllum við jafnframt þá yfirnáttúrulegu sigra sem hér voru unnir í uppbyggingu og endurheimt byggðar. Þessi saga bindur alla Eyjamenn saman sterkum böndum, hvort sem þeir hafi upplifað gosið sjálfir eða ekki.  Goslokahátíðin er því hátíðin okkar og hún verður ekki til nema með samstilltu átaki þeirra sem að henni koma.

Goslokanefnd ársins 2013 hefur formlega tekið til starfa og óskum við eftir samstarfi við einstaklinga og/eða fyrirtæki sem áhuga hafa á að koma að hátíðinni, hvort heldur sem er með hugmyndum, ábendingum, spurningum eða öðru viðeigandi. Hægt er að hafa samband við fulltrúa goslokanefndar í Ráðhúsinu eða í síma 488-2000.

f.h Goslokanefndar
Hildur Sólveig Sigurðardóttir