Markmiðið sjóðsins er að styrkja menningar-, lista-, íþrótta- og tómstundastarfsemi í Vestmannaeyjum með því að styðja við og hvetja einstaklinga, félagasamtök og listahópa til eflingar á viðburðum og verkefnum á sviði menningar, lista, íþrótta og tómstunda. Má þar m.a. nefna styrki til fjölda sýninga, menningartengda viðburða og göngustíga.
Verkefnin sem hljóta styrki eru fjölbreytt og spennandi. Óskar Vestmannaeyjabær öllum styrkþegum til hamingju. Meðfylgjandi er listi yfir þau verkefni sem hljóta styrk úr sjóðnum:
- Handknattleiksdeild IBV - 350.000 kr.
Styrkur fyrir að bjóða upp á handboltaskóla fyrir börn í 3. - 6. bekk í vetrar- eða jólafríinu 2026. Þjálfarar og leikmenn úr meistaraflokki munu aðstoða iðkendur. Verkefnið á að skapa vettvang fyrir börn til þess að mæta og hreyfa sig, læra grunnatriðin í handbolta og kynnast íþróttinni í jákvæðu umhverfi. Markmiðið er einnig að auka áhuga barna á handbolta og hvetja þau til að hefja reglulegar æfingar hjá ÍBV.
- Karlakór Vestmannaeyja - 300.000 kr.
Styrkur fyrir verkefninu Jól í hjarta þar sem kórinn mun koma fram í aðdraganda jóla fyrir ýmsa aðila, m.a. stofnanir og félagasamtök. Reynt er að verða við öllum óskum sem kórnum berast án endurgjalds.
- Innileikvöllur fyrir börn - 400.000 kr.
Styrkur til að vinna að því að opna innileikvöll fyrir börn í Vestmannaeyjum með leiksvæði fyrir yngri börn. Einnig er möguleiki að bjóða upp á afmælisherbergi og kaffiaðstöðu. Tilgangur er að fjölskyldur geti komið saman í öruggt, skapandi og veðuróháðu umhverfi.
- Listasmiðja náttúrunnar - 400.000 kr.
Styrkur fyrir Listasmiðju náttúrunnar sem er fyrir börn á aldrinum 6-12 ára. Þátttakendur sækja innblástur í nærumhverfi og náttúruna, fara í vettvangsrannsóknir og skissa úti. Þeir kynnast ólíkum aðferðum við listsköpun og skissuvinnu og vinna með efnivið úr náttúru Vestmannaeyja ásamt því að fá kennslu í nýjungum í listsköpun frá listgreinamenntuðum kennurum.
- Ég bý á Heimaey - 250.000 kr.
Styrkur fyrir verkefni sem felst í því að heimsækja íbúa Vestmannaeyja í vinnu, heim eða þeirra uppáhalds stað í Eyjum og taka af þeim portret í þeirra besta umhverfi. Lokamarkmið er að hafa sýningu á bæði prentuðum verkum ásamt sýningu á skjám.
- Jólasveinar ganga um gólf - 200.000 kr.
Styrkur fyrir jólasýningu með jólasveinum þar sem tveir jólasveinar koma fram á sviði með gítar og spila og syngja með börnunum í sal. Á milli laga segja jólasveinar skemmtilegar sögur og brandara. Áætlað er að sýningin taki um 45 mínútur og verður á Háaloftinu í Höllinni.
- Fræðslu- og símenntunarmiðstöð - 1.000.000 kr.
Styrkur fyrir uppsetning á leiksýningu fyrir fatlað fólk. Leiksýning með þátttöku fatlaðs fólks sem verður sett á svið fyrir páska 2026. Með verkefninu er vilji til þess að skapa vettvang þar sem þátttakendur fá tækifæri til að efla skapandi tjáningu, byggja upp sjálfstraust og miðla eigin hæfileikum og reynslu til samfélagsins.
- Fræðslu- og símenntunarmiðstöð - 400.000 kr.
Styrkur fyrir námskeiðið ertu að missa af lestinni – er gervigreind fyrir alla. Námskeið fyrir 60 ára og eldri og er tilgangur þess að einstaklingar sem sækja námskeiðið geti aukið sjálfstæði og öryggi með notkun tækninnar og haft gagn og gaman að. Námskeiðið verður vettvangur þar sem eldri borgarar geta lært saman, deilt reynslu og styrkt félagslega tengingu.
- Taflfélag Vestmannaeyja - 300.000 kr.
Styrkur fyrir 100 ára afmælisblað og skákmót. Nefnd sem stofnuð var í tilefni 100 ára afmælis Taflfélags Vestmannaeyja ætlar að standa fyrir 100 ára afmælisskákmóti helgina 29.-30. ágúst nk. sem verður opið öllum og þess vænst að keppendur komi víðsvegar af landinu. Einnig á að gefa út blað í tilefni af afmælinu.
- The Beluga Building Company ehf. - 250.000 kr.
Styrkur fyrir hátíðina Celebrating Vestmannaeyjar. Tveggja daga hátíð í Beluga hvalasafninu og Lundabjörgunarstöðinni í febrúar 2026 sem sameinar menningu Vestmannaeyja, umhverfisvernd og fjölskylduskemmtun. Markmiðið er að styrkja samfélagið, styðja við heimafyrirtæki og auka vitund um náttúruvernd SEA LIFE Trust. - Hollvinasamtök Hraunbúða - 300.000 kr.
Styrkur fyrir Tónleikar fyrir okkar besta fólk. Hollvinasamtök Hraunbúða vilja koma á tveimur árlegum tónleikum á heimilinu. Sá fyrri á fyrri hluta ársins og sá seinni á seinni hluta ársins. Bjóða á upp á veitingar fyrir heimilisfólk og aðstandendur þeirra.
- Knattspyrnudeild ÍBV - 350.000 kr.
Styrkur fyrir fjölskyldudag ÍBV knattspyrnu. Á þessum degi viljum við sameina fjölskylduna í skemmtilegum degi þar sem efla á samkennd iðkenda og fjölskyldna þeirra. Meistaraflokkar félagsins halda opnar æfingar fyrir alla sem mæta, horfa og taka þátt. Vera á með leiki fyrir alla og fyrirlestur um mikilvægi mataræðis og líkamlegs heilbrigði. Einnig á að kynna það starf sem fer fram innan knattspyrnunnar og reyna að efla fjölskyldurnar meira til þátttöku í starfinu.