Trausti Þorsteinsson frá Skólaþróunarsviði Háskólans á Akureyri stjórnar verkefninu.
Samningur hefur verið gerður milli Menntamálaráðuneytisins, Vestmannaeyjabæjar og Skólaþróunarsviðs Háskólans á Akurreyri sem sér um úttektina. Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum, Bergur E. Ágústsson og fyrrnefndur Trausti undirrita samninginn.
Margrét Harðardóttir deildarstjóri í Menntamálaráðuneytinu og Andrés Sigurvinsson framkvæmdastjóri sáu um undirbúning og gerð samningsins ásamt starfsfólki stofnana sinna.
Þessi samningur markar tímamót í úttektarmálum á vegum Menntamálaráðuneytisins, þar sem nú er í fyrsta sinn hér á landi farin sú leið að taka öll skólastigin út, jafnframt sem heildarúttekt á íþrótta-og æskulýðsmálum sveitarfélags er framkvæmd samhliða.
Meginmarkmið úttektarinnar er að meta stöðu og árangur skóla-, íþrótta- og æskulýðsstarfs barna og unglinga í Vestmannaeyjum og í framhaldi af því að gera tillögur til úrbóta.
Trausti Þorsteinsson, verkefnisstjóri, kom hingað á dögunum og fundaði með fræðsluyfirvöldum Vestmannaeyjabæjar, skólastjórum grunnskólanna og skólameistara Framhaldsskólans. Hann hafði með sér ýmiss konar gögn og skýrslur og mun í framhaldi af því setja á stofn rýnihópa innan hvers geira fyrir sig.
Samstarfsfólk Trausta, sem koma frá Skólaþróunarsviði Háskólans á Akureyri, eru: Rósa Eggertsdóttir, Guðmundur Engilbertsson, Sigríður Síta Pétursdóttir og Bragi Guðmundsson. Jafnframt munu fræðsluyfirvöld Vestmannaeyjabæjar aðstoða eftir megni, svo og sérfræðingar frá öðrum stofnunum, gerist þess þörf að mati verkefnisstjórnar.
Kostnaður skiptist til jafns á milli Menntamálaráðuneytisins og Vestmannaeyjabæjar og liggja fyrir verklýsingar og framkvæmdakort vinnunnar.
Andrés Sigurvinsson, framkvæmdastjóri fræðslu- og menningarsviðs Vestm.