Fara í efni
22.09.2015 Fréttir

Þjóðarsáttmáli um læsi

Í gær var skrifað var undir Þjóðarsáttmála um læsi, var athöfnin haldin í Eldheimum. Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra, Elliði Vignisson bæjarstjóri og Sigrún Alda Ómarsdóttir fyrir hönd Heimilis og skóla skrifuðu undir sáttmálann.

Deildu
 Þjóðarsáttmálinn um læsi er hluti af aðgerðaáætlun í kjölfar Hvítbókar um umbætur í menntun. Fór Illugi Gunnarsson ráðherra yfir stöðuna og ræddi sameiginleg markmið sveitarfélaga og menntamálayfirvalda um að vinna að því að a.m.k. 90% nemenda geti lesið sér til gagns árið 2018.

Elliði Vignisson bæjarstjóri kynnti markmið framtíðarsýnar Vestmannaeyjabæjar í læsi og stærðfræði. Í máli hans kom fram að áherslur í framtíðarsýninni eru í takt við þær áherslur sem eru í þjóðarsáttmálanum og komu fram í máli ráðherra.

Lúðrasveitin Litla lú opnaði viðburðinn og við athöfnina voru um 100 börn úr Víkinni og börn úr 1. bekk GRV sem sungu og skemmtu gestum undir leiðsögn Jarls Sigurgeirssonar. Ingó Veðurguð lauk dagskránni með laginu Það er gott að lesa eftir Bubba Morthens með kraftmiklum undirtektum frá nemendum og þeim fullorðnu líka.