Góður rómur var gerður að upplestri nemendanna sem stóðu sig allir með miklum sóma. Þrír nemendur og einn varamaður voru valdir úr hópnum til að keppa við jafnaldra úr skólum á meginlandinu í lokahátíð keppninnar. Þeir eru Haukur Helgason, Daníel Franz Davíðsson, Bertha Þorsteinsdóttir og Þóra Björg Stefánsdóttir. Að þessu sinni verður lokahátíðin haldin í Eldheimum, hér í Eyjum, fimmtudaginn 30. mars n.k. kl. 11.30. Í hléi bauð Ingimar í Vöruvali upp á hlaðborð af ferskum ávöxtum og eru honum færðar sérstakar þakkir fyrir, en hann hefur stutt upplestrarkeppnina með þessu móti mörg undanfarin ár. Nemendum 7. bekkja, bæði lesurum og þeim sem á hlýddu, eru færðar þakkir fyrir gott hljóð og prúðmannlega framkomu. Dómarar fá þakkir fyrir þeirra mikilvæga hlutverk og Tónlistarskólinn fyrir greiðan aðgang að sal skólans og alla aðstoð. Jafnframt eru foreldrum, kennurum og stjórnendum GRV sendar hamingjuóskir með þennan frábæra hóp sem 7. bekkurinn er.
F.h. fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyja
Erna Jóhannesdóttir
fræðslufulltrúi